Ingimundur Níels Óskarsson, kantmaðurinn öflugi sem spilað hefur með FH síðustu tvö ár, mun ganga í raðir Fylkis á ný, samkvæmt heimildum Vísis.
Ingimundur Níels var samningslaus eftir tímabilið hjá FH, en hann lék með Hafnafjarðarliðinu undanfarin tvö tímabil og skoraði þar sjö mörk í 39 deildarleikjum.
Fjögur félög voru á eftir Ingimundi, en hann hefur ákveðið að ganga aftur í raðir Fylkis þar sem hann lék við góðan orðstír frá 2008-2012.
Hann yfirgaf Fylki eftir tímabilið 2012 þegar hann skoraði tíu mörk í 21 leik og fékk bronsskóinn sem þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.
Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir Árbæinga sem þekkja vel til Ingimundar. Hann spilaði í heildina 86 deildarleiki fyrir Fylki áður en hann gekk í raðir FH og skoraði 30 mörk.
Fylkismenn endurheimtu annan öflugan leikmann frá FH í sumar þegar Albert Brynjar Ingason sneri aftur í Árbæinn, en hann og Ingimundur Níels náðu vel saman.
