Erlent

Feitir fá ekki að fljúga út á olíuborpalla

Kristján Már Unnarsson skrifar
Starfsmenn borpalla þurfa, klæddir flotbúningi, að geta komist í gegnum op sem er 48 x 66 sentímetrar að stærð.
Starfsmenn borpalla þurfa, klæddir flotbúningi, að geta komist í gegnum op sem er 48 x 66 sentímetrar að stærð. vísir/getty
Breska loftferðaeftirlitið hefur tilkynnt um hertar öryggisreglur vegna þyrluflugs til olíuborpalla. Tilefnið er mun hærri slysatíðni hjá Bretum en Norðmönnum en 14 af 15 þyrluslysum í Norðursjó á undanförnum fimmtán árum gerðust í breskri lögsögu. Á síðustu fimm árum urðu fimm þyrluslys með 20 dauðsföllum.

Mesta athygli vekur að þyrluflugrekendum verður frá 1. apríl  bannað að flytja farþega sem eru of stórir til að geta komist fullklæddir út um opnanlega neyðarglugga á þyrlunum. Ekki er búið að ákveða við hvaða ummál farþega verður miðað en lágmarksstærð á neyðargluggum á þyrlum verður 48 sentímetra breidd og 66 sentímetra hæð. Borpallastarfsmenn þurfa að geta troðið sér í gegnum slíkt op íklæddir flotbúningi og öðrum nauðsynlegum björgunarbúnaði á sjó.

Þá verður þess krafist að þyrlurnar verði búnar neyðarflotholtum sem komi í veg fyrir að þær velti á hliðina eftir nauðlendingu á sjó. Það er norska blaðið Teknisk Ukeblad sem greinir frá þessu.

Hertar reglur eru settar í framhaldi af rannsókn breskra flugmálayfirvalda á því hversvegna mun fleiri slys urðu hjá flugrekendum sem fljúga út á breska borpalla í Norðursjó heldur en þeim sem fljúga út á norska borpalla. Á árabilinu frá 1992-2013 var tilkynnt um 25 þyrluslys á breska hlutanum, þar af sjö dauðaslys, sem kostuðu alls 51 mannslíf. Á sama tíma var eitt dauðaslys í þyrluflugi á norska hlutanum, sem kostaði tólf mannslíf. Tíðni dauðaslysa á breska hlutanum reyndist vera 0,34 á hverja 100.000 flugtíma eða þrefalt hærri en á norska hlutanum þar sem tíðnin var 0,11 slys á 100.000 flugtíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×