Menning

Bók bókanna sýnd í ýmsum útgáfum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Einn góður vinur safnsins benti okkur á í morgun að við værum hér með eintak af Grútarbiblíunni,“ segir Nanna Lind sem hér er með Eiríki Arnari.
Mynd/Auðunn Níelsson
"Einn góður vinur safnsins benti okkur á í morgun að við værum hér með eintak af Grútarbiblíunni,“ segir Nanna Lind sem hér er með Eiríki Arnari. Mynd/Auðunn Níelsson Mynd/Auðunn Níelsson
„Við fórum djúpt í okkar innstu geymslur og tókum fram nokkra forna dýrgripi. Það er einkum bók bókanna, Biblían, í útgáfum fyrri alda. Þær hafa aldrei verið sýndar en okkur datt í hug að draga þær fram í tilefni af páskunum meðal annars.“

Þetta segir Nanna Lind Svavarsdóttir, verkefnisstjóri á Amtsbókasafninu, sem ásamt Eiríki Arnari Magnússyni hefur unnið þar að uppsetningu sýningar.



„Hér má sjá prentgripi frá því um 1500 og fram til 1900 – stórar og fallegar bækur og ótrúlega vel varðveittar, margar hverjar. Einn góður vinur safnsins benti okkur á í morgun að við værum hér með eintak af Grútarbiblíunni,“ segir hún glaðlega.

„Þessi fimmta útgáfa biblíunnar á íslensku er ýmist kölluð Grútarbiblían eða Hendersonsbiblían. Fyrra nafnið er þannig til komið að Harmljóðin eru í þessari útgáfu kölluð „Harmagrútur Jeremiæ“, í stað „Harmagrátur Jeremiæ“!

Nanna segir flestar bókanna prentaðar í Kaupmannahöfn en nokkrar á Hólum í Hjaltadal frá 1637-1753, meðal annars biblía Þorláks Skúlasonar frá 1637. „Ein biblían er prentuð í Skálholti 1686 og önnur í Viðeyjarklaustri 1841 en sú yngsta í Prentsmiðju Íslands í Reykjavík 1859.“

Innan um bækurnar eru nokkrir kirkjumunir, sumir úr einkaeigu en aðrir fengnir að láni frá Minjasafninu á Akureyri, að sögn Nönnu.

„Hingað kemur margt fólk daglega og sumir koma gagngert til að kíkja á sýninguna. Öllum finnst merkilegt að sjá svona gamlar bækur og krakkar staldra til dæmis við.“

Sýningin er opin á afgreiðslutíma safnsins, frá 10 til 19 virka daga og laugardaga frá 11 til 16.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.