Handbolti

EM í Danmörku verður síðasta mótið hjá Sverre

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverre Andreas Jakobsson.
Sverre Andreas Jakobsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Sverre Andreas Jakobsson, varnartröllið í íslenska handboltalandsliðinu, ætlar að kveðja landsliðið á Evrópumótinu í Danmörku sem hefst um næstu helgi. Þetta kom fram í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Sverre Andreas Jakobsson hefur verið lykilmaður í vörn íslenska landsliðsins undanfarin ár en fyrsta stórmótið hans var HM í Þýskalandi 2007. Evrópumótið í Danmörku verður níunda stórmótið í röð hjá Sverre.

„Þetta er alltaf spurningin um að finna rétta tímapunktinn. Mér finnst vera komið á endastöð hjá mér og ég þarf að fara að hleypa öðrum að í vörnina," sagði Sverri í viðtali við Valtý Björn.

Sverre verður 37 ára gamall í næsta mánuði en hann hefur undanfarin fimm ár leikið með þýska liðinu TV Grosswallstadt. Sverre yfirgefur Grosswallstadt í vor. Ætlar Sverra að koma heim eftir þessa leiktíð og þá jafnvel að taka að sér þjálfun?

„Það er allt opið. Fyrir tveimur árum hefði ég líklega sagt nei við þig strax en þetta er aðeins farið að heilla. Ég hef aðeins verið að undirbúa mig síðasta eitt og hálfa árið. Það gæti alveg gerst," sagði Sverre.

Sverre er einn af 17 leikmönnum sem Aron Kristjánsson valdi í EM-hópinn í dag en fyrsti leikur liðsins er á móti Noregi á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×