Íslenski boltinn

Haukur Heiðar að semja við AIK í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Heiðar Hauksson fagnar hér bikarmeistaratitlinum með KR en hann er annar frá hægri.
Haukur Heiðar Hauksson fagnar hér bikarmeistaratitlinum með KR en hann er annar frá hægri. Vísir/Andri Marinó
Sænski fréttamiðillinn FotbollDirekt hefur heimildir fyrir því að sænska úrvalsdeildarfélagið AIK sé mjög nálægt því að semja við íslenska bakvörðinn Hauk Heiðar Hauksson, sem hefur gert það gott hjá KR-liðinu síðustu ár.

FotbollDirekt segir frá því AIK ætli að leyfa bakverðinum Martin Lorentzson að fara frá félaginu en samningur hans var að renna út.

Haukur Heiðar Hauksson er með samning við KR til ársins 2016 og AIK þarf því að kaupa leikmanninn ætli þeir að fá hann til Stokkhólms.  

Haukur Heiðar var í Svíþjóð í síðustu viku og gekk þar undir læknisskoðun hjá AIK samkvæmt fyrrnefndri fétt FotbollDirekt.

Haukur Heiðar Hauksson er 22 ára gamall og hefur verið í KR síðan að hann kom þangað frá KA fyrir tímabilið 2012.

Haukur spilaði 21 af 22 leikjum KR í Pepsi-deildinni í sumar og gaf meðal annars sex stoðsendingar úr bakvarðarstöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×