Enski boltinn

Rodgers: Auðvitað fylgir því áhætta að fá Balotelli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mario Balotelli gæti reynst happafengur fyrir Liverpool.
Mario Balotelli gæti reynst happafengur fyrir Liverpool. vísir/getty
Ítalski vandræðagemsinn Mario Balotelli gekk í raðir Liverpool í gær, en hann skrifaði undir þriggja ára samning. Liverpool borgar AC Milan 16 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Balotelli spilaði tvö og hálft tímabil með Manchester City og komst þá álíka mikið í fréttirnar fyrir vandræði utan vallar, en þó eru allir sammála um að þarna er á ferð gífurlega hæfileikaríkur leikmaður.

„Okkur finnst við geta fengið hann til liðs við okkur, bætt hann sem leikmann og hjálpað honum að þroskast sem ungur karlmaður,“ sagði BrendanRodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, um kaupin á Balotelli eftir 3-1 tapið gegn City í gær.

„Það velkist enginn í vafa um hæfileika hans, en tíminn mun leiða í ljós hvað gerðist. Auðvitað fylgir þessu áhætta, ég ætla ekki að mótmæla því. Hann veit hann verður að aðlagast okkar siðum og vonandi gerir það hann að betri manni."

Balotelli var í liði Manchester City sem varð Englandsmeistari 2012, en hann skoraði 30 mörk í 80 leikjum í öllum keppnum fyrir City.

Hann fékk fjórum sinnum að líta rauða spjaldið og var myndaður rífast við RobertoMancini, þáverandi knattspyrnustjóra Man. City, á æfingu rétt áður en hann var seldur til Ítalíu.

„Ég talaði ekki við neinn um Balotelli því ef ég hefði gert það hefði ég fengið allskonar sögur af honum,“ sagði Rodgers.

„Ég veit hvað við erum að fá. Þetta er útreiknuð áhætta, en mér hefur litist vel hann við fyrstu kynni. Hann veit sína galla og vill nú fá hjálp og þá er ekki til betra félag fyrir neinn en Liverpool,“ sagði Brendan Rodgers.


Tengdar fréttir

Balotelli genginn í raðir Liverpool

Liverpool staðfesti rétt í þessu að félagið hefði gengið frá kaupunum á framherjanum Mario Balotelli frá AC Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×