Erlent

Gagnavinnsla demókrata gefur þeim drjúgt forskot

Þorgils Jónsson skrifar
Demókratar þykja enn hafa mikið forskot á repúblikana varðandi söfnun og nýtingu á gögnum um hugsanlega kjósendur.
Demókratar þykja enn hafa mikið forskot á repúblikana varðandi söfnun og nýtingu á gögnum um hugsanlega kjósendur. NordicPhotos/AFP
Repúblikanaflokkurinn á ennþá langt í land með að ná demókrötum hvað varðar upplýsinga- og gagnaöflun um bandaríska kjósendur. Þess háttar upplýsingar nýta flokkarnir sér til að gera kosningabaráttu sína markvissari og hagkvæmari.

Þingkosningar fara fram í Bandaríkjunum í haust, en í úttekt Reuters er haft eftir sérfræðingum á þessu sviði að klofningur innan hóps repúblikana komi í veg fyrir samstillt átak. Annars vegar hefur flokkurinn á landsvísu varið tugum milljóna dala í að bæta vinnubrögð við öflun og meðferð gagna, en hins vegar eru öflugir þrýstihópar í íhaldssamari armi flokksins með sín eigin teymi.

Sigur Baracks Obama í síðustu forsetakosningum var að stórum hluta rekinn til gagnateymis framboðsins sem náði að kortleggja með ofurnákvæmum hætti þá kjósendur sem voru líklegir til að kjósa demókrata. Á þeim grundvelli varð baráttan hnitmiðaðri og minni líkur á því að fjármunum væri illa varið.

Síðan þá hefur kosningamaskína demókrata notið góðs gengis í kosningum til ríkisstjóra, borgarstjóra og aukakosningum til þings.

Stóri bardaginn í haust mun standa um öldungadeildina, og mun tæknin sennilega skipta mestu í tvísýnustu kosningunum þar.

Repúblikanar eru þó sagðir vona að þessar kosningar verði í það minnsta upptakturinn að öflugu gagnasöfnunarátaki fyrir forsetakosningarnar eftir tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×