Erlent

Aðstoðarmaður David Cameron handtekinn vegna barnakláms

Samúel Karl Ólason skrifar
Nokkrir menn tengdir David Cameron hafa þurft að segja af sér vegna umdeildra atvika undanfarið.
Nokkrir menn tengdir David Cameron hafa þurft að segja af sér vegna umdeildra atvika undanfarið. Vísir/AFP
Patrick Rock, háttsettur aðstoðarmaður David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið handtekinn vegna gruns um að vera með barnaklám í tölvu sinni. Rock tók þátt í að þróa stefnu stjórnvalda í Bretlandi varðandi netklám þar sem loka átti á aðgang Breta að klámsíðum á internetinu.

Guardian segir frá þessu. Rock var handtekinn í íbúð sinni, en hann hafði sagt upp stöðu sinni eftir að stjórnvöld komust á snoðir um rannsókn lögreglu.

Í byrjun febrúar sagði ráðherra innflytjendamála í Bretlandi af sér eftir að í ljós kom að húshjálp hans til margra ára hafði ekki atvinnuleyfi í landinu.

Andy Coulson, fyrrum samskiptastjóri forsætisráðherrans, sagði af sér í byrjun árs 2011. Þá átti hann yfir höfði sér handtöku og ákæru vegna símahleranna dagblaðsins News of the World, sem hann ritstýrði. Hann hafði þá unnið fyrir David Cameron í þrjú og hálft ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×