Innlent

Átökin í Úkraínu: Vara Rússa við að beita hervaldi

Hrund Þórsdóttir skrifar
Arsení Jatsenúk er forsætisráðherra Úkraínu eftir að þingið samþykkti nýja bráðabirgðastjórn í dag.
Arsení Jatsenúk er forsætisráðherra Úkraínu eftir að þingið samþykkti nýja bráðabirgðastjórn í dag.
Úkraínska þingið samþykkti í dag traustsyfirlýsingu á bráðabirgðastjórnina og útnefndi Arsení Jatsenúk forsætisráðherra. Hann verður forsætisráðherra þar til kosningar fara fram í maí en hann er mjög hlynntur Evrópusambandinu og lét þau orð falla í dag að landið myndi ganga í sambandið. Hann hefur verið áberandi í hópi stjórnarandstæðinga undanfarnar vikur en mótmæli þeirra leiddu meðal annars til þess að forseti landsins, Viktor Janúkovítsj, var sviptur völdum. Hann lítur þó enn á sig sem forseta og er sagt að rússnesk stjórnvöld hafi orðið við beiðni hans um vernd. Mótmælendur brugðust illa við þeim fréttum í dag og lögðu áherslu á að hann ætti ekki afturkvæmt til valda.

Vopnaðir stuðningsmenn Rússlands náðu í nótt þinghúsi sjálfstjórnarhéraðsins Krímar á sitt vald og létu heimamenn stuðning sinn í ljós við þinghúsið í dag, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Þar eru flestir hallir undir Rússa og óttast er að krafist verði aðskilnaðar skagans frá Úkraínu. Nýi forsætisráðherrann er þó á öðru máli og segir að lögð verði áhersla á að koma á stöðugleika á Krímskaganum og sannfæra heimsbyggðina um  að Úkraína sé fullvalda og sameinuð þjóð. Engin aðskilnaðarstefna verði liðin.

Stjórnvöld í Kænugarði hafa varað Rússa við að beita hervaldi og undir það tekur Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×