Ökumaður BMW-jeppa sem ók yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir Yaris-fólksbifreið aðfaranótt laugardagsins 6. apríl í fyrra var ofurölvi. Afleiðingarnar voru þær að ökumaður fólksbifreiðarinnar, sautján ára gömul stúlka, lést. Auk þess var jeppanum ekið á 94-101 km/klst hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um slysið, sem birt var á vef nefndarinnar í dag, kemur fram að áfengismagn í blóði ökumanns jeppans hafi verið 2,7 prómill.
„Einstaklingur undir svo miklum áfengisáhrifum er rænulítill og hefur skerta stjórn á hreyfingum auk annarra þátta sem skerða ökuhæfni. Líkur á að missa meðvitund sökum ölvunar eru talsverðar í þessu ástandi.“
Ökumaður jeppans, kona á fimmtugsaldri, var dæmd í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Vesturlands í desember síðastliðnum. Játaði konan brot sitt afdráttarlaust. Í dómnum sagði að konan hefði sýnt af sér stórfellt og vítavert gáleysi með akstri sínum og valdið dauða og verulega eignatjóni.
Mikill stærðar- og þyngdarmunur var á bílunum tveimur. BMW-jeppinn var 2020 kg að þyngd en Yaris-bíllinn 935 kg. Þá er jeppinn mun hærri en Yaris-inn.
„Sökum þessara tveggja þátta varð höggið þyngra og óhagstæðara fyrir minni bifreiðina og mikil aflögun varð inni í ökumannsrými hennar,“ segir í skýrslunni.
Þá benda hraðaútreikningar til þess að Yarisinn hafi verið á 70-80 km/klst hraða en BMW-jeppinn á 94-101 km/klst hraða þegar slysið átti sér stað.
Báðir ökumenn voru spenntir í öryggisbelti og loftpúðar í stýrinu blésu út.
Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.
Banaslys á Akranesi: BMW-jeppinn á mun meiri hraða

Tengdar fréttir

Faðir Lovísu ósáttur: "Bílar eru bara tveggja tonna drápstæki ef ökumaðurinn er ölvaður“
Segir málatilbúnaðinn í héraðsdómi til háborinnar skammar.

12 mánaða fangelsi fyrir manndráp af gáleysi
Héraðsdómur Vesturlands dæmdi í dag konu í tólf mánaða fangelsi, þar af níu skilorðsbundna, fyrir manndráp af gáleysi. Konan ók bíl undir áhrifum áfengis á Akrafjallsvegi í byrjun apríl síðastliðinn. Bíllinn lenti í árekstri við bíl sem kom úr gagnstæðri átt með þeim afleiðingum að stúlka lést.

Nafn stúlkunnar sem lést
Stúlkan sem lést í bílslysi á Akrafjallsvegi norðan við Hvalfjarðargöngin í fyrrinótt hét Lovísa Hrund Svavarsdóttir. Hún var sautján ára gömul.

Farið fram á 12 til 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi
Í dag var þingfesting í Héraðsdómi Vesturlands í máli gegn konu sem ók ölvuð á bifreið þar sem 17 ára stúlka var ökumaður, með þeim afleiðingum að stúlkan lést.