Erlent

Norður og Suður-Kórea skiptast á skotum

Samúel Karl Ólason skrifar
Svokallaðar áróðursblöðrur eru reglulega látnar svífa yfir landamærin inn í Norður-Kóreu.
Svokallaðar áróðursblöðrur eru reglulega látnar svífa yfir landamærin inn í Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Norður- og Suður-Kórea skiptust á skotum í morgun, eftir að hermenn Norður-Kóreu skutu á svokallaða „áróðursblöðru“. Aðgerðarsinnar og flóttafólk sendir reglulega slíkar blöðrur svífandi yfir landamærin.

Í blöðrunum eru bæklingar, peningar, DVD diskar og usb drif. Tíu slíkar blöðrur voru sendar yfir landamærin í morgun.

AP fréttaveitan segir líklegt að Norðrinu hafi sárnað svo mikið í þetta skipti vegna afmælis kommúnistaflokksins í landinu, sem er í dag.

Nefnd Norður-Kóreu um friðsamlega sameiningu Kóreuskagans sendi tilkynningu í gær vegna blaðranna, áður en þeim var sleppt. Þar segir að blöðrusendingi fari nærri því að vera stríðsyfirlýsing.

Í tilkynningunni segir að haldi Suðrið áfram að leyfa eða hjálpa fólki að dreifa slíkum bæklingum, muni samskipti ríkjanna versna til muna. Þá segir að það yrði eingöngu yfirvöldum í suðri að kenna.

Með blöðrunum eru sendir áróðursbæklingar gegn stjórnvöldum í Norður-Kóreu ásamt peningum og usb drifum.Vísir/AFP
Mikil óvissa ríkir nú yfir vegna stöðu Kim Jong Un, sem hefur ekki sést í rúman mánuð. Hann missti af opinberum viðburði vegna afmælis kommúnistaflokksins í dag, í fyrsta sinn í þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×