Menning

Falleg og angurvær tónlist, bæði íslensk og erlend

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Gunnar og Selma ætla að leiða gesti Hafnarborgar inn í heillandi heim tónlistarinnar.
Gunnar og Selma ætla að leiða gesti Hafnarborgar inn í heillandi heim tónlistarinnar. Mynd/Úr einkasafni
„Megnið af því sem er á efnisskránni hjá okkur Gunnari eru verk sem hafa fylgt okkur lengi og við höfum dálæti á. Við eigum jú tuttugu ára samstarfsafmæli,“ segir Selma Guðmundsdóttir píanóleikari um tónleika hennar og Gunnars Kvaran sellóleikara í Hafnarborg í Hafnarfirði.

Hún segir um rómantísk verk að ræða, bæði erlend og íslensk.

„Þetta er falleg tónlist og angurvær sem passar vel fyrir sellóið því það hefur þann eiginleika að geta sungið svo fallega á lágu nótunum,“ tekur hún fram.

Nefnir Ave Mariu eftir Bach-Gounod, Svaninn eftir Saint-Saëns, Rondo og Menuett eftir Boccherini, Nótt eftir Árna Thorsteinsson auk lengri tónverka eftir Robert Schumann og François Couperin.

Gunnar hefur spilað fjölmarga tónleika í Hafnarborg ásamt Tríói Reykjavíkur.

Tónleikar Gunnars og Selmu á sunnudaginn eru fyrstu kvöldtónleikarnir í Hafnarborg á þessu hausti. Þeir hefjast klukkan 20.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×