Menning

Upphefð að fá að spila með Philip Glass

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Fréttablaðið/Valli
Philip Glass er að mestu hættur að koma fram á tónleikum svo þetta er viðburður í okkar tónlistarlífi.

Mér finnst upphefð að fá að spila með honum. Ekki spillir að hann frumflytur eigin tónsmíðar,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson um tónleikana annað kvöld klukkan 20 í Hörpu.

Sjálfur leggur hann Glass lið, bæði á umræddum tónleikum og í Gautaborg á fimmtudaginn, ásamt hinni japönsku Maki Namekawa.

Víkingur Heiðar kveðst hafa æft etýður Glass samhliða sinfóníuhljómsveitarverkefni undanfarið. Það hafi verið ágæt tilbreyting.

„Brahms-konsert er risastór og það er gott að fara inn í svona mínímalísk verk eins og etýður Philips Glass. Ég hef heldur aldrei spilað mínímalisma áður svo það er ágætt að byrja á því með því að spila með Glass. Hann er stórmerkilegur maður,“ segir hann og kveðst hafa heyrt verk Glass á tónleikum og fylgst með honum sem tónskáldi.

Fyrir þetta verkefni kveðst Víkingur Heiðar virkilega hafa reynt að setja mig inn í hugarheim Glass og hugmyndafræðina sem býr að baki mínímalismanum.

„Maður þarf að opna fyrir nýjar gáttir í hlustuninni þegar maður hlustar á tónlist hans og líka þegar maður spilar hana,“ segir hann.

Glass verður sjötíu og sjö ára á föstudaginn. „Það er auðvitað afstætt hvað er hár aldur en mér finnst skrítið að þessi New York-töffari sé kominn hátt á áttræðisaldur. Rífandi listamaður í fullu fjöri og ótrúlega afkastamikill enda þekktur fyrir að vinna látlaust.

Við spilum á tónleikum í Gautaborg á fimmtudaginn, sama prógramm og hér, og á laugardaginn verður frumsýnd ópera eftir Glass í Gautaborg,“ segir Víkingur Heiðar sem kveðst hafa skoðað heimildarmyndir um snillinginn áður en fundum þeirra ber saman.

„Það er eitthvað ótrúlega heillandi við persónuna Philip Glass og ég hlakka til að hitta hann.“

Philip Glass
Philip Glass fæddist í Baltimore og nam í Juilliard-skólanum í New York.

Hann hefur samið yfir 20 óperur, sinfóníur og fjölda verka fyrir tónlistarhóp sinn, Philip Glass Ensemble.

Hann hefur starfað með listamönnum úr öllum listgreinum og í öllum stílum tónlistar og unnið til viðurkenninga fyrir sígild verk, óperutónlist, kvikmyndatónlist, popptónlist og tónlist við dansverk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.