Fótbolti

Napoli ítalskur bikarmeistari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Napoli fagna marki Lorenzos Insigne í kvöld.
Leikmenn Napoli fagna marki Lorenzos Insigne í kvöld. Vísir/Getty
Napoli varð í kvöld bikarmeistari á Ítalíu eftir 3-1 sigur á Fiorentina á Ólympíuleikvanginum í Róm. Þetta var fimmti bikarmeistaratitill Napoli og um leið fyrsti titilinn sem liðið vinnur undir stjórn Spánverjans Rafa Benitez, sem tók við liðinu fyrir tímabilið.

Napoli hóf leikinn af miklum krafti og Lorenzo Insigne kom liðinu yfir strax á 11. mínútu eftir sendingu frá Marek Hamsik. Insigne var síðan aftur á ferðinni sex mínútum seinna þegar hann skoraði eftir undirbúning Gonzalos Higuain.

Perúmaðurinn Juan Vargas minnkaði muninn á 28. mínútu og þannig stóðu leikar allt fram í uppbótartíma þegar Dries Mertens skoraði þriðja mark Napoli og gulltryggði sigur liðsins.

Napoli lék síðustu tíu mínútur leiksins einum færri eftir að Gökhan Inler var vikið af leikvelli.

Leikurinn hófst rúmum hálftíma síðar en áætlað var vegna óeirða stuðningsmanna liðanna fyrir leikinn. Flugeldum og reyksprengjum var kastað inn á Ólympíuleikvanginn, en samkvæmt frétt á vef BBC voru stuðningsmenn Napoli þar að verki. Óstaðfestar heimildir herma að þeir hafi viljað að leiknum yrði frestað vegna meiðsla sem þrír stuðningsmenn liðsins urðu fyrir í skotárás fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×