Flækjusaga Illuga: Viljum við vera Herúlar? Illugi Jökulsson skrifar 3. maí 2014 11:30 Illugi Jökulsson Aldrei þessu vant er þessi flækjusaga framhald af greininni frá því fyrir viku. Þá hóf ég að segja frá Herúlakenningunni en hana setti Barði Guðmundsson, sagnfræðingur og þjóðskjalavörður, fram um og upp úr miðri síðustu öld. Kenningin gekk í örstuttu máli út á að þegar Ísland var numið af norrænum mönnum á ofanverðri níundu öld, þá hafi ekki verið á ferð tilfallandi búandkarlar og uppflosnaðir víkingahöfðingjar frá Noregi endilöngum, heldur hafi verið um að ræða sérstaka þjóð sem tók sig upp og fluttist í heilu lagi hingað út. Barði nefndi ýmislegt til sönnunar kenningu sinni, ekki síst að landnámsmenn hefðu smíðað sér samfélag sem var að ýmsu leyti furðu ólíkt samfélagi þeirra Norðmanna sem eftir urðu. Nefnum bara menninguna: Af hverju varðveittist ævaforn norrænn bókmennta- og söguarfur á Íslandi en ekki Noregi? Af hverju héldu Íslendingar áfram að þróa þann bókmenntaarf og endaði með bæði Heimskringlu og svo hinum einstöku Íslendingasögum, en í Noregi var ekkert nýtt skrifað svo öldum skipti? Og þar var komið sögunni að Barði hafði fundið þjóðina sem hann taldi að hefði búið í þessum vesturfjörðum Noregs á níundu öld en þá ákveðið af einhverjum dularfullum ástæðum að skárra væri að byggja útsker þetta en hina frjósömu norsku firði. Það voru Herúlar, lítil en herská germönsk þjóð sem þvældist um Evrópu með sverð á lofti frá þriðju öld og örlítið fram á þá sjöttu, þegar hún hverfur úr sögunni. Þá höfðu Herúlar fyrst farið ránshendi um frægar borgir eins og Aþenu og um leið lagt í rúst hof Díönu í Efesus, sem var eitt af sjö undrum fornaldar, síðan verið í slagtogi með hinum alræmdu Húnum um langt skeið og loks stofnað sitt eigið ríki í Mið-Evrópu sem skrimti þó ekki nema fáeina áratugi.Saga Herúla púsluð saman Fljótlega eftir að Herúlakóngurinn Ródolfó féll fyrir Langbörðum hurfu Herúlar úr evrópskum heimildum eins og jörðin hefði gleypt þá. Þá var komið fram á sjöttu öld og nú tóku við verstu flúðirnar sem Barði Guðmundsson þurfti að vaða með Herúlakenningu sína. Gat það sem sé átt sér að einhver hópur Herúla hefði haldið aftur alla leið til Norðurlanda, sest að í Noregi og haldið þar þjóðarvitund sinni (og varðveitt sinn einstaka frumgermanska menningararf) í hátt í fjórar aldir og svo rokið út til Íslands seint á níundu öld? Og nú fór að vandast málið. Saga Herúla, eins og hún var púsluð saman á 19. og 20. öld, er að vísu ögn flóknari en ég hef hingað til gefið í skyn. Í fyrsta lagi eru til heimildir um „Herúla“ sem hafa flust til Niðurlanda (nú Hollands og Belgíu) þegar meginhluti þeirra á að hafa farið í austurveg til Póllands. Og nokkrum öldum seinna spyrst til þessa hóps að herja suður á Spáni eftir að hafa siglt á herskipum frá Niðurlöndum. Ekki verður betur séð en þar hafi eins konar frum-víkingar verið á ferð. Það er reyndar stuðningsmönnum Herúlakenningarinnar til gleði að oftar en einu sinni er minnst á dugnað Herúla við siglingar, þeir komu sér til dæmis upp flota í Svartahafi og Eyjahafi þegar þeir voru að herja þar með Gotum á ofanverðri þriðju öld. Gæti fortíð Herúla við siglingar, spyrja menn, ekki bent til þess að þeir hafi ekkert látið sér vaxa í augum að leggja út á Atlantshaf um 870 er þeir ákváðu skyndilega að setjast að á hinni nýju eyju sem þar hafði fundist úti í hafi?Agalausir villimenn Og þá eru líka til heimildir sem benda til þess að meðan Herúlar voru á þvælingi sínum langt suður í Evrópu, þá hafi þeir haldið tengslum við frændur sína í norðri. Latneski sagnaritarinn Procopius greindi frá því: „Herúlarnir sýndu nú sitt villimannlega og ofsafengna eðli gagnvart sínum eigin konungi sem nefndist Ochus. Fyrirvaralaust drápu þeir hann, án nokkurrar annarrar ástæðu en að þeir óskuðu að vera framvegis konungslausir. Hafa ber í huga að þó að konungur Herúla hefði konungs nafnbót hafði hann í reynd nákvæmlega engin forréttindi fram yfir aðra þegna. Allir nutu þess réttar að sitja að snæðingi með honum og atyrða hann ef þeim svo sýndist, því engir menn í veröldinni eru síður bundnir siðvenjum eða agalausari en Herúlar. Þegar illvirkið hafði verið framið urðu þeir strax fullir iðrunar. Þeir áttuðu sig á því að án foringja og herstjórnanda gætu þeir ekki verið. Þess vegna varð niðurstaða þeirra sú, eftir ítarlegar umræður, að best væri að kalla til konungdóms einn úr konungsfjölskyldu þeirra frá Thule [Norðurlöndunum].“ Síðan segir Procopius frá komu nýs konungs að norðan. Í Svíþjóð eru til kenningar um að þangað hafi Herúlar hrökklast eftir að hafa misst lönd sín í Mið-Evrópu og síðast í kringum Belgrad, og orðið hafi fagnaðarfundir með þeim og hinum Herúlunum sem orðið höfðu eftir á fornum slóðum sænskum. Herúlarnir hafi síðan orðið að yfirstétt í landinu og frá þeim sé komin sú konungsætt sem lengi á að hafa ríkt yfir Svíþjóð og kallast hafi Ynglingar. Sú kenning er studd vitnisburði ekki minni manns en Snorra Sturlusonar, því í Heimskringlu hans er rakin för forfeðra Ynglinga sunnan úr álfu og norður til Svíþjóðar. Og viti menn, það var einmitt eitt einkenni Ynglinga, hve snöggir þeir voru stundum að aflífa kónga sína ef þeir stóðu sig ekki í stykkinu, rétt eins og Procopius segir um Herúla. Hér ber svo einnig í framhjáhlaupi að geta þess að svipað ferðalag sunnan úr álfu rekur Snorri Sturluson líka í blábyrjun Eddu sinnar, þar sem upphaf hinna fornu Ása er rakið suður á Balkanskaga – en sumir djarflegir túlkendur sögunnar vilja halda lengra og finna þeim stað í Aserbaídsjan, og erum við þá komin á slóðir Thors Heyerdahls og hinna „alternatífu“ kenninga hans um hvaðeina í sögunni. Þar hafa Herúlar blandast inn í, og til að sannreyna það ættu fróðleiksfúsir að fara á YouTube og slá inn nafni Freysteins Sigurðssonar. Hann hefur útbúið snotra fyrirlestra um Herúlakenninguna og rakið hana allt aftur til Heyerdahls og Ása. En þá er og skylt að geta þess að flestöllum fræðimönnum munu þykja vísindi eins og þau sem Freysteinn boðar eiga meira skylt við dulræn fræði en mannkynssögu.Hagmæltir og duglegir Eins og sjá má á ramma þeim sem hér fylgir á síðunni, þá er svo lokastig Herúlakenningarinnar að frá Svíþjóð hafi Herúlar flust til Noregs og hingað út. Því miður fyrir stuðningsmenn kenningarinnar verður að viðurkenna að fátt eða ekkert af nýlegum rannsóknum styður kenningu Barða og sporgöngumanna hans, en margt mælir í mót henni. Nýlegar fornleifarannsóknir benda til að landnámið hafi tekið lengri tíma en áður var talið og því hafi ekki verið um að ræða hina snöggu landflutninga sem Barði taldi sig þurfa að skýra, og DNA-rannsóknir benda ekki til þess að sá hluti landnámsmanna sem kom frá Noregi hafi verið í neinu ólíkir öðrum Norðmönnum. Þrátt fyrir að ýmsar spurningar standi eftir (svo sem eins og af hverju hinn germanski sagnaarfur varðveittist hér betur en annars staðar, en því hefur aldrei verið svarað á viðhlítandi hátt) þá verðum við því líklega að leggja Herúlakenninguna á hilluna. Eða afhenda hana Litháum, nú er nefnilega risin upp Herúlakenning í Litháen, þeir eru sagðir forfeður Samógitíana sem dúkkuðu upp á strandlengjunni upp af hafnarborginni Klaípeda löngu eftir 1000 – prófið að slá inn „heruli“ og „samogitians“ á Google. Hér hefur því miður ekki gefist tóm til að ræða spurninguna um hvort og að hve miklu leyti hinir fornu Herúlar hafi getað talist „þjóð“ á nútímavísu, en það er raunar alveg óvíst, kannski voru þeir upphaflega stétt úrvalshermanna af einhverju tagi eða „herúlfar“ frekar en sérstakur ættbálkur. En hverjir sem þeir voru, þá verðum við að íhuga málið vandlega áður en við förum að sækjast eftir því að tilheyra þeim eða tileinka okkur arf þeirra. Þeir voru nefnilega ekki aðeins hagmæltir og duglegir til manndrápa, heldur segir og um þá í rómverskum heimildum að Herúlar hafi verið „svikulir, undirförulir, drykkfelldir og villimenn í kynlífi“. Og mundum við láta þvíumlíkt um okkur spyrjast? Flækjusaga Menning Mest lesið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Sjón og Eggers leiða hesta sína saman í nýjum vampíruhryllingi Bíó og sjónvarp Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Aldrei þessu vant er þessi flækjusaga framhald af greininni frá því fyrir viku. Þá hóf ég að segja frá Herúlakenningunni en hana setti Barði Guðmundsson, sagnfræðingur og þjóðskjalavörður, fram um og upp úr miðri síðustu öld. Kenningin gekk í örstuttu máli út á að þegar Ísland var numið af norrænum mönnum á ofanverðri níundu öld, þá hafi ekki verið á ferð tilfallandi búandkarlar og uppflosnaðir víkingahöfðingjar frá Noregi endilöngum, heldur hafi verið um að ræða sérstaka þjóð sem tók sig upp og fluttist í heilu lagi hingað út. Barði nefndi ýmislegt til sönnunar kenningu sinni, ekki síst að landnámsmenn hefðu smíðað sér samfélag sem var að ýmsu leyti furðu ólíkt samfélagi þeirra Norðmanna sem eftir urðu. Nefnum bara menninguna: Af hverju varðveittist ævaforn norrænn bókmennta- og söguarfur á Íslandi en ekki Noregi? Af hverju héldu Íslendingar áfram að þróa þann bókmenntaarf og endaði með bæði Heimskringlu og svo hinum einstöku Íslendingasögum, en í Noregi var ekkert nýtt skrifað svo öldum skipti? Og þar var komið sögunni að Barði hafði fundið þjóðina sem hann taldi að hefði búið í þessum vesturfjörðum Noregs á níundu öld en þá ákveðið af einhverjum dularfullum ástæðum að skárra væri að byggja útsker þetta en hina frjósömu norsku firði. Það voru Herúlar, lítil en herská germönsk þjóð sem þvældist um Evrópu með sverð á lofti frá þriðju öld og örlítið fram á þá sjöttu, þegar hún hverfur úr sögunni. Þá höfðu Herúlar fyrst farið ránshendi um frægar borgir eins og Aþenu og um leið lagt í rúst hof Díönu í Efesus, sem var eitt af sjö undrum fornaldar, síðan verið í slagtogi með hinum alræmdu Húnum um langt skeið og loks stofnað sitt eigið ríki í Mið-Evrópu sem skrimti þó ekki nema fáeina áratugi.Saga Herúla púsluð saman Fljótlega eftir að Herúlakóngurinn Ródolfó féll fyrir Langbörðum hurfu Herúlar úr evrópskum heimildum eins og jörðin hefði gleypt þá. Þá var komið fram á sjöttu öld og nú tóku við verstu flúðirnar sem Barði Guðmundsson þurfti að vaða með Herúlakenningu sína. Gat það sem sé átt sér að einhver hópur Herúla hefði haldið aftur alla leið til Norðurlanda, sest að í Noregi og haldið þar þjóðarvitund sinni (og varðveitt sinn einstaka frumgermanska menningararf) í hátt í fjórar aldir og svo rokið út til Íslands seint á níundu öld? Og nú fór að vandast málið. Saga Herúla, eins og hún var púsluð saman á 19. og 20. öld, er að vísu ögn flóknari en ég hef hingað til gefið í skyn. Í fyrsta lagi eru til heimildir um „Herúla“ sem hafa flust til Niðurlanda (nú Hollands og Belgíu) þegar meginhluti þeirra á að hafa farið í austurveg til Póllands. Og nokkrum öldum seinna spyrst til þessa hóps að herja suður á Spáni eftir að hafa siglt á herskipum frá Niðurlöndum. Ekki verður betur séð en þar hafi eins konar frum-víkingar verið á ferð. Það er reyndar stuðningsmönnum Herúlakenningarinnar til gleði að oftar en einu sinni er minnst á dugnað Herúla við siglingar, þeir komu sér til dæmis upp flota í Svartahafi og Eyjahafi þegar þeir voru að herja þar með Gotum á ofanverðri þriðju öld. Gæti fortíð Herúla við siglingar, spyrja menn, ekki bent til þess að þeir hafi ekkert látið sér vaxa í augum að leggja út á Atlantshaf um 870 er þeir ákváðu skyndilega að setjast að á hinni nýju eyju sem þar hafði fundist úti í hafi?Agalausir villimenn Og þá eru líka til heimildir sem benda til þess að meðan Herúlar voru á þvælingi sínum langt suður í Evrópu, þá hafi þeir haldið tengslum við frændur sína í norðri. Latneski sagnaritarinn Procopius greindi frá því: „Herúlarnir sýndu nú sitt villimannlega og ofsafengna eðli gagnvart sínum eigin konungi sem nefndist Ochus. Fyrirvaralaust drápu þeir hann, án nokkurrar annarrar ástæðu en að þeir óskuðu að vera framvegis konungslausir. Hafa ber í huga að þó að konungur Herúla hefði konungs nafnbót hafði hann í reynd nákvæmlega engin forréttindi fram yfir aðra þegna. Allir nutu þess réttar að sitja að snæðingi með honum og atyrða hann ef þeim svo sýndist, því engir menn í veröldinni eru síður bundnir siðvenjum eða agalausari en Herúlar. Þegar illvirkið hafði verið framið urðu þeir strax fullir iðrunar. Þeir áttuðu sig á því að án foringja og herstjórnanda gætu þeir ekki verið. Þess vegna varð niðurstaða þeirra sú, eftir ítarlegar umræður, að best væri að kalla til konungdóms einn úr konungsfjölskyldu þeirra frá Thule [Norðurlöndunum].“ Síðan segir Procopius frá komu nýs konungs að norðan. Í Svíþjóð eru til kenningar um að þangað hafi Herúlar hrökklast eftir að hafa misst lönd sín í Mið-Evrópu og síðast í kringum Belgrad, og orðið hafi fagnaðarfundir með þeim og hinum Herúlunum sem orðið höfðu eftir á fornum slóðum sænskum. Herúlarnir hafi síðan orðið að yfirstétt í landinu og frá þeim sé komin sú konungsætt sem lengi á að hafa ríkt yfir Svíþjóð og kallast hafi Ynglingar. Sú kenning er studd vitnisburði ekki minni manns en Snorra Sturlusonar, því í Heimskringlu hans er rakin för forfeðra Ynglinga sunnan úr álfu og norður til Svíþjóðar. Og viti menn, það var einmitt eitt einkenni Ynglinga, hve snöggir þeir voru stundum að aflífa kónga sína ef þeir stóðu sig ekki í stykkinu, rétt eins og Procopius segir um Herúla. Hér ber svo einnig í framhjáhlaupi að geta þess að svipað ferðalag sunnan úr álfu rekur Snorri Sturluson líka í blábyrjun Eddu sinnar, þar sem upphaf hinna fornu Ása er rakið suður á Balkanskaga – en sumir djarflegir túlkendur sögunnar vilja halda lengra og finna þeim stað í Aserbaídsjan, og erum við þá komin á slóðir Thors Heyerdahls og hinna „alternatífu“ kenninga hans um hvaðeina í sögunni. Þar hafa Herúlar blandast inn í, og til að sannreyna það ættu fróðleiksfúsir að fara á YouTube og slá inn nafni Freysteins Sigurðssonar. Hann hefur útbúið snotra fyrirlestra um Herúlakenninguna og rakið hana allt aftur til Heyerdahls og Ása. En þá er og skylt að geta þess að flestöllum fræðimönnum munu þykja vísindi eins og þau sem Freysteinn boðar eiga meira skylt við dulræn fræði en mannkynssögu.Hagmæltir og duglegir Eins og sjá má á ramma þeim sem hér fylgir á síðunni, þá er svo lokastig Herúlakenningarinnar að frá Svíþjóð hafi Herúlar flust til Noregs og hingað út. Því miður fyrir stuðningsmenn kenningarinnar verður að viðurkenna að fátt eða ekkert af nýlegum rannsóknum styður kenningu Barða og sporgöngumanna hans, en margt mælir í mót henni. Nýlegar fornleifarannsóknir benda til að landnámið hafi tekið lengri tíma en áður var talið og því hafi ekki verið um að ræða hina snöggu landflutninga sem Barði taldi sig þurfa að skýra, og DNA-rannsóknir benda ekki til þess að sá hluti landnámsmanna sem kom frá Noregi hafi verið í neinu ólíkir öðrum Norðmönnum. Þrátt fyrir að ýmsar spurningar standi eftir (svo sem eins og af hverju hinn germanski sagnaarfur varðveittist hér betur en annars staðar, en því hefur aldrei verið svarað á viðhlítandi hátt) þá verðum við því líklega að leggja Herúlakenninguna á hilluna. Eða afhenda hana Litháum, nú er nefnilega risin upp Herúlakenning í Litháen, þeir eru sagðir forfeður Samógitíana sem dúkkuðu upp á strandlengjunni upp af hafnarborginni Klaípeda löngu eftir 1000 – prófið að slá inn „heruli“ og „samogitians“ á Google. Hér hefur því miður ekki gefist tóm til að ræða spurninguna um hvort og að hve miklu leyti hinir fornu Herúlar hafi getað talist „þjóð“ á nútímavísu, en það er raunar alveg óvíst, kannski voru þeir upphaflega stétt úrvalshermanna af einhverju tagi eða „herúlfar“ frekar en sérstakur ættbálkur. En hverjir sem þeir voru, þá verðum við að íhuga málið vandlega áður en við förum að sækjast eftir því að tilheyra þeim eða tileinka okkur arf þeirra. Þeir voru nefnilega ekki aðeins hagmæltir og duglegir til manndrápa, heldur segir og um þá í rómverskum heimildum að Herúlar hafi verið „svikulir, undirförulir, drykkfelldir og villimenn í kynlífi“. Og mundum við láta þvíumlíkt um okkur spyrjast?
Flækjusaga Menning Mest lesið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Sjón og Eggers leiða hesta sína saman í nýjum vampíruhryllingi Bíó og sjónvarp Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira