Menning

Nálgast dularfullan barón úr annarri átt

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
„Þetta var mjög dularfullur maður og í raun og veru var ósköp fátt vitað um hann,“ segir Þórarinn um baróninn.
„Þetta var mjög dularfullur maður og í raun og veru var ósköp fátt vitað um hann,“ segir Þórarinn um baróninn. Fréttablaðið/Valli
Þetta verður svona í svipuðum stíl og aðrir höfundar hafa gert í Landnámssetrinu,“ segir Þórarinn Eldjárn spurður hvernig hann muni flytja sögu barónsins á föstudagskvöldið. „Þá er tekið eitthvert efni sem stendur manni nærri af því að maður hefur skrifað um það og maður prófar að segja söguna, að sjálfsögðu með þeim breytingum sem því fylgir að skipta um miðil.“ Spurður hvort hann hyggist flytja söguna með leikrænum tilþrifum hristir Þórarinn höfuðið. „Ekki verður nú mikið um það að ég bregði mér í hlutverk. Ég verð meira bara eins og hinn hefðbundni sögumaður.“

Þórarinn skrifaði skáldsögu um baróninn og kom hún út fyrir réttum tíu árum, eða 2004. Baróninn, eða Charles Gauldrée-Boilleau eins og hann hét réttu nafni, kom til Íslands árið 1898 með þá staðföstu ákvörðun að ætla að setjast að á Íslandi. Hann sá mikil tækifæri bæði í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu og lét sig dreyma um stórbrotnar framkvæmdir. Þórarinn hafði lengi verið hugfanginn af sögu barónsins áður en hann lét verða af því að skrifa sögu hans. „Þetta er efni sem ég fékk mikinn áhuga á mjög snemma eftir að hafa lesið ýmislegt sem skrifað hafði verið um hann,“ segir hann. „Það endaði svo með því að ég skrifaði þessa heimildasögu. Upphaflega hélt ég að það væri svo mikið til af heimildum um hann að ég gæti bara valið og hafnað og búið svo til einhverja sögu upp úr því. Ég komst þó fljótt að því að eiginlega allt sem hafði verið skrifað um hann hér voru bara tómar getgátur. Þetta var mjög dularfullur maður og í raun og veru var ósköp fátt vitað um hann.“



Þórarinn lagðist í miklar rannsóknir og athuganir sem hann segir hafa leitt ýmislegt í ljós sem fram komi í bókinni. Hann segist jafnframt hafa haldið áfram að forvitnast um sögu barónsins þau tíu ár sem liðin eru síðan bókin kom út, en ekki fundið neitt nýtt sem geti talist bitastætt. „Ég vitja reglulega um ákveðnar slóðir á internetinu en hef ekki fundið neitt sem er einhver veruleg viðbót eða ný sannindi.“



Þórarinn segir nálgunina við söguna vera dálítið aðra við að segja hana heldur en skrifa. „Ég kem dálítið úr annarri átt að baróninum í þessu prógrammi, þannig að það er langt frá því að ég sé að endurtaka bókina.“



Frumflutningur verður eins og áður sagði klukkan 20 á föstudagskvöldið og næstu tvær sýningar verða 18. og 25. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×