Menning

Lífið getur líkst völundarhúsi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Haraldur við uppsetningu á verkum sínum í Hafnarborg.
Haraldur við uppsetningu á verkum sínum í Hafnarborg. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta eru bæði skúlptúrar og teikningar og ég er líka með verk í glugganum, sem liggur í hinu hárfína bili milli listheimsins og verslunargötunnar. Gegnumgangandi þráður í sýningunni eru mörk eða tálmar sem minna á kort eða hnit enda heitir sýningin H N I T,“ segir Haraldur Jónsson myndlistarmaður um verk á sýningu sem hann opnar í dag í Hafnarborg í Hafnarfirði, nánar tiltekið í Sverrissal á neðri hæðinni.

Hann segir hnitin vísa í margar áttir, til dæmis í kortlagningu á lífi og tilfinningum sem líkst geti völundarhúsi, og sömuleiðis hugtakinu að fara „yfir strikið“, inn í persónulegt rými annars í einhverjum skilningi.

H N I T er fyrsta einkasýning Haraldar í nokkurn tíma en hann er á meðal þeirra sem sett hafa svip sinn á íslenskt listalíf um árabil. Hefur og haldið fjölda sýninga um víða veröld.

Samhliða þessari sýningu kemur út bókverkið H O L D, sjálfstætt listaverk sem endurspeglar hugmyndir sýningarinnar. Að útgáfu bókverksins koma, auk Hafnarborgar, bókaútgáfan Útúrdúr og hönnuðurinn Ármann Agnarsson.

Á morgun, 19. janúar klukkan 15 tekur Haraldur þátt í leiðsögn um sýninguna og ræðir við gesti um verk sín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×