Alls verða 25 leikir heimsmeistarakeppninnar í handbolta sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Keppnin fer fram í Katar og stendur yfir frá 15. janúar til 1. febrúar.
Rúv mun sýna um 35 leiki frá keppninni en samstarf Rúv og 365 gerir það að verkum að aldrei áður hefur verið jafn mikið sýnt frá heimsmeistarakeppninni í handbolta í íslensku sjónvarpi.
Vel verður fylgst með íslensku þjálfurunum en meðal þeirra leikja sem verður á dagskrá Stöðvar 2 Sports verður viðureign Danmerkur og Þýskalands í D-riðli þann 20. janúar. Liðin eru þjálfuð af Guðmundi Guðmundssyni og Degi Sigurðssyni.
Patrekur Jóhannesson er svo þjálfari austurríska liðsins en Stöð 2 Sport sýnir frá fjórum leikjum hvers Íslendingaliðs í riðlakeppninni.
HM-stofa með Guðjóni Guðmundssyni verður á dagskrá eftir hvern leik íslenska landsliðsins og þá mun öflugt teymi fréttamanna frá 365 fylgja eftir strákunum okkar í Katar og flytja af þeim fréttir í Fréttablaðinu, Stöð 2 og vitanlega hér á Vísi.
Handbolti