Menning

Kristjana Arngríms í Fríkirkjunni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Stjarnanna fjöld er fyrsti textinn sem ég læt flakka,“ segir Kristjana.
"Stjarnanna fjöld er fyrsti textinn sem ég læt flakka,“ segir Kristjana.
„Ég syng jólalög sem þjóðin þekkir en með nýrri nálgun. Svo er eitt frumsamið af mér sem heitir Stjarnanna fjöld eins og nýi diskurinn minn.“ Þetta segir söngkonan Kristjana Arngrímsdóttir um dagskrá tónleika sem hún heldur í Fríkirkjunni í Reykjavík annað kvöld klukkan 20.30.

Hún segir lögin bæði íslensk og erlend, í bland við jólasálma í nýjum útsetningum og nefnir sálma eins og Í dag er glatt og Það aldin út er sprungið.

Örn Eldjárn gítarleikari, sonur Kristjönu, útsetti öll lögin og spilar undir, ásamt Jóni Rafnssyni kontrabassaleikara en þau þrjú eru saman í tríói. Einnig verður leikið á fiðlu, fagot, selló og horn.

Stjarnanna fjöld er fjórði diskur Kristjönu á sólóferli hennar og sá fyrsti með lagi eftir hana. Skyldi hún semja mikið?

„Nei, ég er eiginlega bara að byrja. Stjarnanna fjöld er líka fyrsti textinn sem ég læt flakka. En það kemur önnur plata í vor með frumsömdu efni einvörðungu. Þetta er svona forsmekkurinn.“

Tónleikarnir í Fríkirkjunni eru þeir einu sunnan heiða, aðrir verða í Dalvíkurkirkju 19. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×