Lífið

Sjónvarpsstöðin Hamborgarafabrikkan

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón Mýrdal furðar sig á nýju nafni sjónvarpstöðvarinnar Bravó.
Jón Mýrdal furðar sig á nýju nafni sjónvarpstöðvarinnar Bravó. Mynd / samsett
Jón Mýrdal, vert á Bravó, furðar sig á nafninu á nýrri sjónvarpsstöð. Hamborgarakóngarnir Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson hyggjast opna sjónvarpsmarkað og svo sjónvarpsstöð fyrir ungt fólk sem þeir vilja kalla Bravó.

Þetta er undir merkjum Konunglega kvikmyndafélagsins en að því standa sömu aðilar og reka framleiðslufyrirtækið Stórveldið.

Veitingamaðurinn Jón, sem rekur einmitt skemmtistaðinn Bravó við Laugaveg, segir að þessi nafngift ætti kannski ekki að koma svo á óvart, þegar allt kemur til alls.

„Þeir eru þekktir fyrir að fara troðnar slóðir; ekkert mjög frumlegir náungar. En, þetta er náttúrlega gott nafn. Ekki hægt að segja annað. Þetta er óskyldur rekstur. Þannig að það er ekki hægt að gera neitt mál úr þessu,“ segir Jón sem reynir að sjá einhver tækifæri í þessu.

Sigmar og Jóhannes eru einkum þekktir fyrir það í seinni tíð að reka veitingastaðinn Hamborgarafabrikkuna.

„Þeir hefðu auðvitað átt að skíra sjónvarpsstöðina það. Sjónvarpsstöðin Hamborgarafabrikkan! En, það gengur náttúrlega svo vel á Bravó og þeir hafa líklega viljað ríða þá öldu. En, mér finnst lágmark úr því sem komið er að þeir haldi opnunarpartí á Bravó. Ef þeir halda opnunarpartíið sitt á Hamborgarafabrikkunni, þá fer ég í mál við þá,“ segir Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×