Fótbolti

Lewandowski skrifaði undir fimm ára samning við Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski fagnar marki á móti Bayern.
Robert Lewandowski fagnar marki á móti Bayern. Mynd/NordicPhotos/Getty
Pólski landsliðsframherjinn Robert Lewandowski hefur gengið frá fimm ára samningi við þýsku meistarana í Bayern Munchen og mun því fara til liðsins í sumar. Þetta er staðfest á heimasíðu félagsins í kvöld.

Samningur Lewandowski og Borussia Dortmund rennur út í sumar og það hefur verið eitt versta geymda leyndarmál þýska fótboltans að leikmaðurinn sé á leiðinni til erkifjendanna í Bayern.

Lewandowski er 25 ára og ætti að eiga sín bestu ár eftir í boltanum. Lewandowski mætti til Munchen í dag þar sem hann fór í læknisskoðun og skrifaði síðan undir fimm ára samning sem heldur honum hjá Bayern til 30. júní 2019.

Karl-Heinz Rummenigge og Matthias Sammer gengu frá samningnum fyrir hönd Bayern Munchen en félagið er þarna að ná í aðra stórstjörnu frá Dortmund því hjá Bayern spilar í dag Mario Götze, fyrrum stjörnuleikmaður Dortmund.

Robert Lewandowski hefur verið í hópi sterkustu framherja heims undanfarin ár en hann hefur skorað 11 mörk í 15 leikjum í þýsku deildinni í ár og hefur alls skorað 91 mark í 163 leikjum síðan að kom til Borussia Dortmund árið 2010.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×