Sport

Kristinn Torfa mætir Dana og Breta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gariner, Jensen og Kristinn.
Gariner, Jensen og Kristinn. Mynd/Frjálsíþróttasamband Íslands
FH-ingurinn Kristinn Torfason fær væna samkeppni utan úr heimi í langstökkskeppni Reykjavik International Games í Laugardalshöll á sunnudaginn.

Daninn Morten Jensen hefur boðað komu sína á leikana. Enginn Dani hefur stokkið lengra en Jensen en landsmet hans frá árinu 2005 er 8,25 metrar. Hann fékk brons á EM innanhúss árið 2011 þegar hann stökk 7,64 metra.

Danier Gariner frá Bretlandi er efnilegur stökkvari sem hefur verið að bæta sig undanfarin ár. Hann á best 7,58 metra frá því í fyrra en hann er einnig öflugur hlaupari líkt og Kristinn. Þá ku hann vera með svarta beltið í júdó og bæði öflugur sundkappi og knattspyrnumaður.

Kristinn hefur staðið uppi sem sigurvegari á leikunum undanfarin tvö ár. Hans besti árangur innanhúss er 7,77 metrar frá árinu 2011. Hann stökk lengst 7,63 metra í fyrra. Íslandsmetið innanhúss sem utanhúss er í eigu Jóns Arnars Magnússonar. 8,00 metrar er met Jóns Arnars utanhúss en 7,82 metrar innandyra.

Keppni í langstökki hefst á sunnudaginn klukkan 13.15 í frjálsíþróttasal Laugardalshallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×