Innlent

Úthlutunarnefnd ætti að geta staðið fyrir máli sínu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Ef maður sækir um eitthvað verður maður að vera maður til þess að taka höfnun,“ segir Bubbi.
"Ef maður sækir um eitthvað verður maður að vera maður til þess að taka höfnun,“ segir Bubbi. vísir/Stefán
Bubbi Morthens sótti um listamannalaun en tilkynnt var um úthlutun þeirra í fréttatilkynningu í gær. Hann fékk ekki launin í þetta skiptið.

„Ég hef sótt um undanfarin ár og í eitt skipti fengið sex mánaða laun. Í öll hin skiptin var mér hafnað,“ segir Bubbi.

Hann segir enga kergju vera í sér vegna þessa. „Ef maður sækir um eitthvað verður maður að vera maður til þess að taka höfnun.“

Þó hann sé ekki persónulega gramur yfir úthlutuninni segir hann að það mætti gera þeim, sem taka ákvörðun um úthlutun launanna, að standa fyrir máli sínu og útskýra af hverju einn fær laun en annar ekki. Menn þurfi að geta staðið með því sem þeir eru að gera og ákveða.

Í flestum tilvikum svara menn fyrir ákvarðanir, sérstaklega í  tilvikum eins og þessum en þetta sé partur af hinu opinbera.

„Það eina sem ég hef við listamannalaunin að athuga er að þeir sem taka ákvarðanirnar þurfa ekki að útskýra eitt eða neitt. Ég man varla eftir öðru eins nema þá kannski í sambandi við úthlutun Reykjavíkurborgar á styrkjum til RIFF eða Bíó Paradísar, þar virðist enginn heldur þurfa að gera grein fyrir neinu,“ segir Bubbi. „Það finnst mér skrítið.“

„Líklega er úthlutun listamannalauna pólitísk, rétt eins og úthlutun heiðurslistamannalauna. Ég get auðvitað ekki alhæft neitt um um það, en manni svona finnst það ekki ólíklegt,“ segir Bubbi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×