Erlent

Iceland sigaði lögreglunni ekki á gámagramsara

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Í tilkynningu frá Iceland segir að umrædd verslun sé við hliðina á lögreglustöð og að lögreglumennirnir hafi handtekið gramsarana að eigin frumkvæði.
Í tilkynningu frá Iceland segir að umrædd verslun sé við hliðina á lögreglustöð og að lögreglumennirnir hafi handtekið gramsarana að eigin frumkvæði. vísir/getty
Starfsmenn Iceland-verslunar í Lundúnum siguðu lögreglunni ekki á þrjá karlmenn sem handteknir voru fyrir að taka matvæli úr ruslagámi á bak við verslunina. Þetta fullyrða forsvarsmenn verslanakeðjunnar á vefsíðu Iceland.

Karlmennirnir eiga yfir höfði sér ákæru fyrir brot á umdeildum lögum frá árinu 1824 sem kölluð eru „vagrancy“-lögin og snúa að heimilislausu fólki og betlurum. Þar er meðal annars kveðið á um að slíkt fólk megi ekki vera á afgirtum svæðum líkt og baklóð verslunarinnar.

Mennirnir sem um ræðir eru sagðir vera hústökumenn og meðal þess sem þeir tóku úr gámnum voru tómatar, sveppir, ostur og kökur. Samanlagt andvirði varanna er 33 pund, eða rétt rúmlega 6 þúsund krónur.

Í tilkynningu Iceland, sem áður var í eigu Landsbankans og Glitnis, segir að umrædd verslun sé við hliðina á lögreglustöð og að lögreglumennirnir hafi handtekið gramsarana að eigin frumkvæði. Þá kemur fram að yfirmenn verslunarinnar hafi ekki vitað af handtökunni fyrr en greint var frá þeim í fjölmiðlum síðdegis í gær.

„Við erum að reyna að komast að því hvers vegna það er talið í þágu almennings að lögsækja þessa menn og munum tjá okkur frekar um málið þegar meiri upplýsingar liggja fyrir.“

Þinghald fer næst fram í málinu þann 3. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×