Erlent

Obama lofar að auka jöfnuð í Bandaríkjunum

Stefnuræðu forsetans er ávallt beðið með eftirvæntingu.
Stefnuræðu forsetans er ávallt beðið með eftirvæntingu. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti hét því í stefnuræðu sinni í nótt að auka jöfnuð í landinu á þessu ári. Forsetinn eyddi miklu púðri í ræðu sinni í að fullvissa almenning um að hann ætli að gera allt sem í hans valdi stendur til að draga úr efnahagslegum ójöfnuði fólks í landinu.

Obama skaut föstum skotum að þinginu þar sem Repúblikanar ráða ríkjum í fulltrúadeildinni og hafa nógu marga menn í öldungadeildinni til þess að stöðva lagasetningu. Forsetinn sagðist munu beita öllum ráðum til þess að grípa þegar til mögulegra aðgerða án þess að þurfa að bera þær undir þingið.

Hann hét því að þetta ár verði ár framkvæmdanna, og sagði forsetinn að þrátt fyrir þingið vilji vera aðgerðalaust þá vilji þjóðin það það ekki og heldur ekki hann sjálfur. Hann lofaði ýmsum breytingum sem að hans sögn munu styrkja millistétt landsins og gera tekjulægra fólki kleift að komast upp í millistéttina.

Nú þegar rúmt ár er liðið frá því forsetinn var endurkjörinn stríðir hann við mikla stjórnarandstöðu frá Repúblikönum á þinginu  og þá sýna kannanir að Obama hefur ekki verið óvinsælli frá því hann tók við embættinu árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×