Erlent

Íhuga endurvakningu aftökusveita

Samúel Karl Ólason skrifar
Spurningar eru upp um virkni banvænna sprauta.
Spurningar eru upp um virkni banvænna sprauta. Getty
Vegna lítilla birgða af efnum sem notað er í banvænar sprautur og spurninga um virkni þeirra, eru yfirvöld ríkja í Bandaríkjunum þar sem dauðarefsingar eru við lýði, farin að líta til fortíðar. Víða eru vangaveltur um að hefja aftur notkun aftökusveita, rafmagnsstóla og gasklefa. Notkun þessara aftökuleiða var að mestu hætt fyrir meira en þrjátíu árum.

Ekki tilraun til afturfarar

„Þetta er ekki tilraun til að fara aftur til 1850 eða í villta vestrið eða eitthvað slíkt,“ sagði Rick Brattin þingmaður Missouri, sem lagði fram tillögu um notkun aftökusveita fyrr í mánuðinum. „Ég sé fram á vandamál og er að reyna að koma upp með lausn sem er í senn mannúðleg og hagkvæm fyrir Missouri.“

Hann sagði einnig að spurningar um banvænar sprautur myndu leiða til málaferla, tefja aftökur og neyða ríki til að leita annarra leiða. Að það væri ósanngjarnt gagnvart ættingjum fórnarlamba að þurfa að bíða eftir réttlæti í mörg ár eða áratugi, á meðan yfirvöld og dómarar rökræddu um aftökuaðferðir.

Þingmaður í Wyoming lagði einnig fram tillögu í mánuðinum um aftökusveitir og sagði þær vera mun ódýrari kost en að byggja gasklefa. Aðeins einn fangi býður aftöku í Wyoming, en það er hinn 68 ára Dale Wayne Eaton og enginn hefur verið aflífaður í ríkinu í 22 ár.

Aftökum fækkar

Aftökum hefur farið fækkandi á undanförnum árum. Árið 1999 náði fjöldi þeirra hámarki og voru 98 teknir af lífi. Á síðasta ári voru þeir 39. Evrópskir lyfjaframleiðendur hafa ekki viljað selja banvæn efni til fangelsa í Bandaríkjunum þar sem þeir vilja ekki að vörur sínar séu notaðar til þess að taka fanga af lífi.

Þá hafa tvær nýlegar aftökur vakið upp spurningar varðandi virkni lyfjanna. Í síðustu viku var Dennis McGuire tekinn af lífi með banvænni sprautu og ferlið tók 26 mínútur. Þann 9. janúar voru síðust orð Michael Lee Wilson við aftöku: „Ég finn allan líkama minn brenna.“

Aftökusveitir í þremur ríkjum

Í Virginíu liggur frammi frumvarp sem myndi leyfa aflífun fanga í rafmagnsstóli, ef banvænar sprautur væru ekki til. Í Utah hafa lengi verið notaðar aftökusveitir og var fangi síðast leiddur fyrir slíka sveit árið 2010. Í Oklahoma eru aftökusveitir leyfilegur möguleiki, en eingöngu ef sprautur og rafmagnsstólar verði sögð brjóta gegn stjórnarskránni.

Delaware, New Hampshire og Washington ríki leyfa föngum að velja hengingu og gasklefi er leyfilegur í Arizona, Missouri og Wyoming ríkjum. Rafmagnsstóllinn er leyfilegur í átta ríkjum, Alabama, Arkansas, Flórída, Kentucky, Oklahoma, Suður-Karólínu, Tennessee og Virginíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×