Sport

Nadal kláraði Federer í þremur settum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Nadal fagnar hér sæti í úrslitaleiknum.
Rafael Nadal fagnar hér sæti í úrslitaleiknum. Vísir/NordicPhotos/Getty
Spánverjinn Rafael Nadal er kominn í úrslitaleikinn í einliðaleik karla á opna ástralska mótinu í tennis eftir sannfærandi 3-0 sigur á Svisslendingnum Roger Federer í undanúrslitum mótsins í dag.

Þetta er þriðji úrslitaleikur Nadal á opna ástralska mótinu en hann vann mótið í fyrsta og eina skiptið árið 2009. Nadal missti mikið úr á síðasta tímabili en er að koma sterkur inn á nýju ári.

Rafael Nadal vann settin 7-6, 6-3 og 6-3 og ef hann spilar áfram svona í úrslitaleiknum er hann mjög sigurstranglegur í úrslitaleiknum. Fyrsta settið var mjög jafnt en Nadal marði sigur þar og kláraði síðan tvö síðustu settin nokkuð sannfærandi. „Þetta var mín besta spilamennska á mótinu," sagði Rafael Nadal eftir leikinn.

Roger Federer, sem var búinn að slá út kappa eins og Andy Murray og Jo-Wilfried Tsonga á mótinu, tókst ekki að komast í 25. úrslitaleikinn sinn á risamóti.

Rafael Nadal á möguleika á að vinna sitt fjórtánda risamót þegar hann mætir Stanislas Wawrinka í úrslitaleiknum. Þetta verður aftur á móti fyrsti úrslitaleikur Wawrinka sem sló meðal annars út Novak Djokovic. Nadal hefur unnið alla tólf innbyrðisleiki þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×