Fyrsta deildartap Liverpool síðan í septem­ber

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Mohamed Salah og félagar í Liverpool áttu hræðilegan fyrri hálfleik og töpuðu á Craven Cottage.
 Mohamed Salah og félagar í Liverpool áttu hræðilegan fyrri hálfleik og töpuðu á Craven Cottage. Getty/Harry Murphy

Liverpool tapaði fyrsta deildarleik sínum síðan í september og mistókst að auka forskot sitt á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-2 tap á útivelli á móti Fulham í dag.

Liverpoool er með ellefu stiga forystu þegar sjö leikir eru eftir en Arsenal gerði jafntefli í sínum leik í gær.

Liverpool var taplaust í síðustu 26 deildarleikjum sínum og hafði ekki tapað á útivelli í ensku úrvalsdeildinni á allri leiktíðinni.

Liverpool hefur vissulega efni á að tapa stigum en þessi úrslit ættu þó að gefa Arsenal von um að Liverpool geti tapað eftir frábært gengi í deildinni undanfarna mánuði.

Fulham er líka eitt af fáum liðum sem hefur strítt Liverpool í báðum leikjunum á leiktíðinni því Fulham hafði gert 2-2 jafntefli í fyrri leiknum á Anfield.

Fulham fór líka illa með Liverpool menn í fyrri hálfleiknum en í þeim síðari sótti Liverpool stíft og var nálægt því að fá eitthvað út úr leiknum.

Fulham var miklu betra liðið í fyrri hálfleik og það þrátt fyrir að Alexis Mac Allister hafi komið Liverpool yfir með frábæru marki á fjórtándu mínútu. Mac Allister keyrði þá á vörnina og skoraði með stórkostlegu langskoti.

Það héldu þá flestir að Liverpool liðið færi í gang en annað kom á daginn. Fulham menn héldu ótrauðir áfram og komust í 3-1 eftir þrjú mörk á ótrúlegum fjórtán mínútna kafla þar sem Liverpool vörnin leit mjög illa út. Þetta voru sannkallaðar martraðarmínútur fyri Liverpool liðið.

Ryan Sessegnon jafnaði metin í 1-1 á 23. mínútu, Alex Iwobi kom Fulham yfir á 32. mínútu og Rodrigo Muniz skoraði síðan þriðja markið á 37. mínútu.

Staðan var 3-1 i hálfleik en í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Liverpool liðsins.

Varamaðurinn Luis Diaz minnkaði muninn í 3-2 átján mínútum fyrir leikslok eftir að hafa fengið stoðsendingu frá öðrum varamanni Conor Bradley.

Liverpool fékk nokkur góð færi til að jafna en náði ekki að skora. Fulham menn fögnuðu því óvæntum og frábærum sigri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira