Manchester-liðin, United og City, gerðu markalaust jafntefli í daufum grannaslag á Old Trafford í gær. Neville var ekki hrifinn af því sem hann sá.
„Ég held að það hafi ekki verið einn leikmaður sem gekk af velli vonsvikinn með markalaust jafntefli. Ég held að þeir hafi allir labbað af velli hugsandi: Við erum í lagi og gerðum ekki mistök. Þetta voru mikil vonbrigði. Ég biðst afsökunar á lýsingunni minni. Þetta hafði áhrif á mig og ég var líka leiðinlegur,“ sagði Neville.
„Ég skil það sem hann [Ruben Amorim, knattspyrnustjóri United] sagði um að United og City séu á erfiðum stað á tímabilinu. En þessi vélmennafótbolti að yfirgefa aldrei stöðurnar okkar, hinum minnstu smáatriðum sé stjórnað, að hafa ekki frelsi til að taka áhættu og vinna leiki er veila í fótboltanum; þetta er sjúkdómur í boltanum.“
Neville kennir Pep Guardiola, stjóra City, að stórum hluta um þessa breytingu á fótboltanum en önnur, og slakari, lið reyni að apa eftir honum og City-liðinu hans.
United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins skorað 37 mörk í 31 leik á tímabilinu. City, sem hefur sex sinnum unnið deildina undir stjórn Guardiolas, er í 5. sætinu.