Menning

„Bendir til þess að maður hafi verið að velja rétta fólkið í verkið“

Bjarki Ármannsson skrifar
Þorbjörg Helga í hlutverki sínu.
Þorbjörg Helga í hlutverki sínu.
„Ég vissi nú svo sem alveg að myndin fengi tilnefningar, en fjöldinn kom mjög skemmtilega á óvart,“ segir Ragnar Bragason, leikstjóri kvikmyndarinnar Málmhaus.

Tilnefningar til Edduverðlaunanna í ár voru tilkynntar í gær og hlaut Málmhaus flestar tilnefningar, 16 talsins.

„Þessu fylgir mikil gleði og stolt, bæði fyrir myndarinnar hönd og samstarfsfólks,“ segir Ragnar. Hann nefnir sérstaklega leikara myndarinnar í þessu sambandi en fimm þeirra hlutu tilnefningu fyrir frammistöðu sína, þeirra á meðal Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir fyrir aðalhlutverk.

„Það bendir til þess að maður hafi verið að velja rétta fólkið í verkið.“





Alls voru 108 verk send til tilnefningar í ár, sem er met. Ragnar segir þetta jákvætt en telur þó að fjöldi verkefna í kvikmyndaiðnaðinum gæti komið til með að dragast saman á næstu árum vegna niðurskurðar hins opinbera.

„Mann grunar svolítið að þetta verði svona stór Edda og svo fari þetta minnkandi. Maður verður bara að vona það besta, að stjórnvöld sjái að sér og átti sig á mikilvægi þess að halda hér uppi öflugum kvikmyndaiðnaði.“

Edduverðlaunin verða veitt þann 22. febrúar og verður sýnt beint frá hátíðinni á Stöð 2. Ragnar er hóflega vongóður á gengi Málmhauss.

„Það er svo mikið af frábærum verkefnum, myndir eins og Hross í Oss og XL sem eiga verðlaun skilið,“ segir hann. „Þetta verður mjög spennandi Edda í ár.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×