Erlent

Hert innflytjendalöggjöf setur tvíhliða samninga í uppnám

Evrópusambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðsla sem fór fram í dag í Sviss í dag þar sem rétt rúmlega helmingur kjósenda samþykkti að herða innflytjendalög í landinu. Slík lagasetning er í andstöðu við tvíhliða samninga Sviss við sambandið en frjálst flæði fólks er hluti af svokölluðu fjórfrelsi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Svisslendingar reiða sig að miklu leyti á tvíhliða samninga við Evópusambandið þar sem þeir eru hvorki hluti af EES né ESB.

Á vef Ríkisútvarpsins segir að í yfirlýsingu Evrópusambandsins sé niðurstaða Svisslendinga hörmuð og að hún sé í andstöðu við þá viðleitni sambandsins að koma á sameiginlegum evrópskum vinnumarkaði. Þá kalli niðurstaðan á endurskoðun á öllum samningum Sviss við Evrópusambandið.

Til að tillagan taki gildi þarf svissneska þingið að samþykkja hana en svissneski þjóðarflokkurinn hafði beitt sér af krafti fyrir atkvæðagreiðslunni. Stuðningsmenn tillögunnar segja innflytjendur í landinu vera of marga en andsæðingar lagasetningarinnar telja innflytjendur hins vegar afar mikilvæga fyrir svissneskt atvinnulíf og hafa varað við því að efnahag landsins væri stefnt í hættu ef viðkvæmir samningar við Evrópusambandið þurfi að sæta endurskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×