Erlent

AT&T fyrsta stórfyrirtækið til þess að mótmæla aðgerðum Rússlands gegn samkynhneigðum

Baldvin Þormóðsson skrifar
Skautahöllin í Richmond sem smíðuð var fyrir Vetrarólympíuleikana árið 2010.
Skautahöllin í Richmond sem smíðuð var fyrir Vetrarólympíuleikana árið 2010. Vísir/getty
Í gær varð bandaríska fjarskiptafyrirtækið AT&T fyrsta stórfyrirtækið sem kemur að Ólympíuleikunum til þess að gagnrýna aðgerðir Rússlands gegn samkynhneigðum.

Síðan lögin voru samþykkt í Rússlandi í júní 2013, hafa samkynhneigðir í Rússlandi orðið fyrir síendurteknum árásum og ofbeldi.

Mannréttindasamtök Sameinuðu Þjóðanna biðluðu til þeirra stórfyrirtækja sem styrkja Alþjóðlega Ólympíusambandið til þess að gagnrýna þessar aðgerðir Rússlands og þau augljósu mannréttindabrot sem fylgja þessum lögum. Þrátt fyrir að vera ekki opinber stuðningsaðili Ólympíusambandsins ákvað AT&T að svara kallinu og standa með mannréttindasamtökum um allan heim.

Í yfirlýsingu sinni sem birtist í gær settu AT&T fram harða gagnrýni á aðgerðir Rússlands:

,,Ólympíuleikarnir í Sotsjí gefa okkur tækifæri til þess að vekja athygli á málefni sem að stendur okkur öllum nærri: Jafnrétti. Einsog þið kannski vitið þá eru mannréttindasamtök um allan heim að mótmæla rússneskum lögum sem brjóta á grundvallarmannréttindum. Til þess að vekja athygli á þessu hafa Mannréttindasamtök Sameinuðu Þjóðanna sent opið bréf á öll stórfyrirtæki sem koma til með að styrkja Ólympíusambandið þar sem þau eru hvött til þess að mótmæla þessum lögum og aðgerðum Rússlands.

AT&T er ekki stuðningsaðili Alþjóðlega Ólympíusambandsins, og því fengum við ekki sent téð bréf. Við erum hinsvegar stuðningsaðili Bandaríska Ólympíusambandsins og höfum styrkt bandaríska keppendur í langan tíma. Við stöndum með Mannréttindasamtökum Sameinuðu Þjóðanna og við mótmælum þessum rússnesku lögum.''

Í sömu yfirlýsingu hvetja AT&T önnur stórfyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama:

,,Nú þegar leikarnir eru að bresta á, viljum við styðja við bakið á þeim bandarísku

keppendum sem unnið hafa vel og lengi og fórnað mörgu til þess að ná sínum markmiðum. Á sama tíma viljum við lýsa yfir stuðningi okkar á samtökum hinsegin fólks og við vonum að aðrir stuðningsaðilar Ólympíuleikanna geri slíkt hið sama.''



Hingað til hafa engin önnur stórfyrirtæki tekið til máls.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×