Erlent

Sameinuðu þjóðirnar gagnrýna Páfagarð

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Páfinn á Péturstorginu í morgun.
Páfinn á Péturstorginu í morgun. Vísir/AP
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sent frá sér skýrslu, þar sem Páfagarður er harðlega gagnrýndur fyrir að hafa áratugum saman brugðist þolendum kynferðisbrota.

Stefna kaþólsku kirkjunnar hafi í raun gert prestum hennar kleift að nauðga og níðast á börnum, án þess að þurfa að svara til saka.

Páfagarður er eindregið hvattur til þess að opna skjalasöfn sín um barnaníðinga innan kirkjunnar og yfirmenn þeirra, sem hafa gætt þess að hjúpa afbrot þeirra leynd.

Í skýrslunni er kaþólska kirkjan einnig harðlega gagnrýnd fyrir stefnu sína gagnvart samkynhneigð, getnaðarvörnum og fóstureyðingum. Kirkjan þurfi að breyta stefnu sinni til þess að tryggja réttindi barna og aðgang þeirra að heilbrigðisþjónustu.

Hvað varðar kynferðisbrot þá segist nefndin hafa „alvarlegar áhyggjur af því að Páfagarður hafi ekki viðurkennt umfang þeirra glæpa, sem framdir hafa verið, ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana til þess að takast á við kynferðisbrot gegn börnum og til þess að vernda börn, og hafi aðhyllst stefnu og stundað vinnubrögð sem hafa orðið til þess að kynferðisbrot hafa haldið áfram og hinir seku hafa sloppið við refsingu.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×