Erlent

Borgarstjóri sniðgengur skrúðgöngu

Bjarki Ármannsson skrifar
Bill de Blasio segist ekki hafa tekið þátt í göngunni undanfarin ár.
Bill de Blasio segist ekki hafa tekið þátt í göngunni undanfarin ár. Vísir/AFP
Bill de Blasio, nýr borgarstjóri New York-borgar, tilkynnti á þriðjudag að hann ætli sér ekki að taka þátt í hinni frægu skrúðgöngu borgarinnar á degi heilags Patreks í næsta mánuði. Ástæðan er áralöng illvild milli aðstandenda göngunnar og samtaka samkynhneigðra í borginni. Það er New York Times sem greinir frá þessu.

De Blasio, sem tók við embætti nú á nýársdag, verður fyrsti borgarstjóri New York í 20 ár sem tekur ekki þátt í skrúðgöngunni. Forverar hans, Michael Bloomberg og Rudolph Giuliani, tóku þátt öll árin sín í embætti.

„Ég er einfaldlega ósammála skipuleggjendum þessarar skrúðgöngu varðandi útilokun ákveðinna einstaklinga í þessari borg,“ sagði de Blasio á blaðamannafundi í ráðhúsi New York. Samkynhneigðir einstaklingar mega ekki taka þátt í skrúðgöngunni vinsælu ef þeir vekja athygli á kynhneigð sinni á nokkurn hátt. Skipuleggjendur göngunnar, sem eru nær eingöngu Kaþólikkar, hafa hlotið talsverða gagnrýni fyrir þessa stefnu sína á undanförnum árum.

De Blasio segist ætla að heiðra sögu írskra innflytjenda í New York með því að taka þátt í öðrum viðburðum á degi heilags Patreks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×