Erlent

Strokufanginn aftur í hendur lögreglu

Bjarki Ármannsson skrifar
Öryggismyndavél á bensínstöðinni náði þessari mynd af Elliot.
Öryggismyndavél á bensínstöðinni náði þessari mynd af Elliot. Vísir/AP
Yfirvöld í Michigan-ríki í Bandaríkjunum leita nú logandi ljósi fjöldamorðingjans Michael David Elliot sem slapp úr fangelsi seint í gær. Þetta kemur fram á vef BBC America.

Elliot hlaut lífstíðardóm í fangelsi árið 1994 fyrir fjögur morð. Lögregla segir hann hafa grafið sig undir tvær girðingar til að sleppa úr prísund sinni. Hann neyddi í kjölfarið konu sem átti leið hjá til að keyra sig á næstu bensínstöð en þar skildi hann hana eftir og hefur ekkert sést til hans síðan. Bíll konunnar fannst síðar yfirgefinn. 

Elliot er sagður hafa verið klæddur í hvítan búning til brúks í eldhúsi fangelsins þegar hann flúði. Engir aðrir fangar sluppu með honum. 

Uppfært klukkan 01:00

Lögregluyfirvöld í Michigan tóku Elliot fastan í kvöld að því er AP fréttastofan greinir frá. Lögreglan stöðvaði bifreið morðingjans við eftirlit í LaPorte-sýslu. Hann gafst ekki upp heldur reyndi að komast undan á tveimur jafnfljótum. Hann hafði hins vegar ekki erindi sem erfiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×