Erlent

Óhuggulegt klifurmyndband slær í gegn

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Lögreglan í Sjanghæ hefur varað fólk við klifrinu.
Lögreglan í Sjanghæ hefur varað fólk við klifrinu.
Myndband af klifri tveggja ofurhuga á topp Sjanghæturnsins hefur vakið mikla athygli og hefur myndbandið verið spilað rúmlega 23 milljón sinnum á YouTube frá því það var birt fyrir viku.

Sjanghæturninn er 121 hæða og 632 metra hár. Stefnt er á að ljúka byggingu hans á þessu ári og verður hann opnaður almenningi árið 2015.

Þeir Vadim Makhorov og Vitaliy Raskalov klifruðu upp turninn á nýársdegi Kínverja, þann 31. janúar. Makhorov er 24 ára gamall Rússi en Raskalov er 21 árs Úkraínumaður. Þeir biðu með klifrið til miðnættis í von um að þá væru öryggisverðir sofnaðir. Það fylgir ekki sögunni hvort sú varð raunin, en félagarnir létu vaða og tók klifrið um sólarhring.

Útsýnið úr turninum er svakalegt eins og sjá má í myndbandinu.
Fyrstu 120 hæðirnar klifruðu þeir á tveimur klukkustundum en þeir þurftu að bíða í um það bil átján klukkutíma eftir betra veðri til að komast upp á topp.

Mennirnir, sem sagðir eru gefa upp fölsk nöfn, segjast ekki vilja ögra yfirvöldum en lögreglan í Sjanghæ hefur engu að síður sent út tilkynningu þar sem þeir vara fólk við uppátækjum sem þessu.

Nánar er fjallað um atvikið á vef The Economist en myndband af klifrinu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Lofthræddir eru þó varaðir við að horfa á það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×