Ligety náði langbestum tíma allra keppanda í fyrri ferðinni í morgun og mátti því slaka aðeins á í seinni ferðinni sem kláraðist nú rétt í þessu. Samanlagður tími hans var 2:45,29 mínútur.
Hann slakaði kannski fullmikið á í þeirri síðari og hugsaði meira um að verja forskot sitt en sækja af krafti niður brekkuna. Hann náði aðeins 14. besta tímanum af þeim 30 bestu í seinni ferðinni en það dugði til sigurs.
Þetta er annað Ólympíugull Bandaríkjamannsins á ferlinum en hann vann alpatvíkeppnina í Tórínó fyrir fjórum árum. Hann er aftur á móti ríkjandi heimsmeistari í stórsvigi, risasvigi og alpatvíkeppni.
Frakkar fengu bæði silfur og brons. Steve Missillier kom annar í mark á 2:45,77 mínútum og vann sín fyrstu verðlaun á Ólympíuleikum 29 ára gamall. Alexis Pinturault náði þriðja besta samanlögðum tíma, 2:45,93 mínútur.

