Innlent

Fjölmörg tilefni til að breyta Seðlabankanum

Heimir Már Pétursson skrifar
Fjármálaráðherra segir fjölmörg tilefni vera til endurskoðunar á lögum um Seðlabanka Íslands og útilokar ekki breytingar á bankanum. Hins vegar hafi engar ákvarðanir verið teknar um fjölgun bankastjóra.

Vilji stjórnvöld losna við Má Guðmundsson úr Seðlabankanum verða þau að tilkynna honum það fyrir næst komandi fimmtudag að staða hans verði auglýst laus til umsóknar. Að öðrum kosti á hann rétt á endurskipun í embætti, óski hann eftir því.

Stendur til að auglýsa þessa stöðu?

„Ég get ekki tjáð mig um það nákvæmlega hvernig á því máli verður haldið. En ef til einhvers slíks kæmimyndum við skoða það í samhengi við það að við ætluðum að hrinda af stað einhverri vinnu við að endurskoða seðlabankalögin. Það eru hlutir sem þurfa að eiga sér einhvern eðlilegan aðdraganda og vandaðan undirbúning að mínu áliti,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Núverandi seðlabankastjóri hefur lýst því yfir opinberlega að hann hafi áhuga á að sinna starfinu áfram. Verður hann seðlabankastjóri næsta haust?

„Við skulum sjá hver niðurstaðan verður. Ég ætla ekki að svara því hér og nú,“ segir fjármálaráðherra.

Bjarni segir engar meiriháttar breytingar á lögum um Seðlabankann hafa verið í undirbúningi. Hins vegar sé á dagskrá frumvarp sem lúti að uppgjörsreglum Seðlabankans og ríkissjóðs.

„Ég ætla hins vegar ekki að útiloka það að við viljum efna til endurskoðunar á lögum um Seðlabankann. Það eru fjölmörg tilefni til að gera það. En hverning verður nákvæmlega að því staðið hefur ekki verið endanlega ákveðið,“ segir Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×