Erlent

Loftsteinn mun þjóta hjá jörðinni á ógnarhraða í kvöld

Jóhannes Stefánsson skrifar
Loftsteinar fara reglulega nærri jörðu.
Loftsteinar fara reglulega nærri jörðu. Vísir/NASA
Loftsteinn á stærð við þrjá fótboltavelli mun þjóta framhjá jörðinni í um 2,5 milljón kílómetra fjarlægð í kvöld. Þó að fjarlægðin virðist mikil við fyrstu sýn er hún afar lítil í hinu stóra samhengi. Þegar næst lætur verður loftsteinninn í um nífaldri fjarlægð tungslsins frá jörðinni.

Lotfsteinninn er á rúmlega 43.000 kílómetra hraða á klukkustund en vísindamenn telja að engin ógn muni stafa af honum.

„Loftsteinar valda tjóni eða slysum á um hundrað ára fresti, eins og loftsteinninn þann 20. júní 1908 og í febrúar á seinasta ári eru til vitnis um," segir Bob Berman, vísindamaður við Slooh stofnunina. Stofnunin mun sýna á vefnum þegar loftsteinninn fer framhjá jörðinni. Útsendinguna má sjá hér að neðan en hún hefst klukkan 02 í nótt að íslenskum tíma.

„Á nokkurra alda fresti gerist það að enn stærri loftsteinar skella á jörðinni, sem betur fer oftast í sjónum eða á óbyggðum svæðum, eins og Suðurskautslandinu," bætir Berman við.

„Okkur stafar sífelld og raunveruleg ógn af árekstrum sem geta breytt lífhvolfi jarðarinnar. Þess vegna ættum við að fylgjast með hlutum sem koma nálægt sporbaug jarðar og gera áætlanir um það hvernig við getum forðað árekstrum af þeirra völdum með skömmum fyrirvara. Ég tel það vera skynsamlega nýtingu á fjármunum," segir Berman.

Telegraph greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×