Erlent

Tvöhundruð þúsund forða sér undan eldgosi

vísir/AFP
Tvöhundruð þúsund manns í þrjátíu og sex þorpum og bæjum á eyjunni Jövu í Indónesíu hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín eftir að gos hófst í eldfjallinu Kelud. Að minnsta kosti tveir eru látnir í hamförunum en askan úr fjallinu hefur dreifst yfir stórt svæði og þar á meðal yfir borgina Surabaya, sem er í 130 kílómetra fjarlægð frá gosstöðvunum.

Þeir sem létust bjuggu í lélegum húsum sem kiknuðu undan álaginu þegar öskulagið settist á þökin.  Í sumum bæjum sem nær standa mælist nú þegar fjögurra sentimetra öskulag. Þremur flugvöllum á eyjunni hefur verið lokað. Fjallið hefur verið að bæra á sér síðustu vikurnar og tókst jarðfræðingum að vara við gosinu nú með um klukkustundar fyrirvara.

Ekki er ljóst hvort allir hafi hlýtt fyrirskipunum yfirvalda um að forða sér og hefur herinn verið kallaður út til að aðstoða fólk við að koma sér í var frá öskuskýinu. Fjallið gaus síðast árið 1990 og þá fórust tugir manna en í öflugu gosi árið 1919 fórust um fimm þúsund manns. Jarðskjálftar og eldgos eru tíð í Indónesíu en virk eldfjöll í landinu eru um það bil hundrað og þrjátíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×