Erlent

Forsætisráðherra Ítalíu segir af sér

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Letta til vinstri og Renzi til hægri - flokksbræðurnir deila hart.
Letta til vinstri og Renzi til hægri - flokksbræðurnir deila hart.
Forsætisráðherra Ítalíu, Enrico Letta, segist ætla að segja af sér á morgun. Letta var leiðtogi Partito Democratico – flokki Demókrata á Ítalíu um árabil en yngri flokksbróðir hans, Matteo Renzi, náði formannskjöri á síðasta flokksþingi. Renzi er borgarstjóri Flórens og hefur nú gefið út að hann sækist eftir starfi Letta – vill verða forsætisráðherra.

Letta segir ákvörðun sína byggða á ákvörðun flokksins og mun formlega afhenda Giorgio Napolitano, forseta Ítalíu, afsögn sína á morgun.

Efnahagurinn slæmur

Renzi, sem er 39 ára, þykir Letta ekki hafa náð nægilegum tökum á efnahagi Ítalíu. Atvinnuleysið er mikið í landinu; hefur ekki verið jafn mikið í 40 ár. Neikvæður hagvöxtur hefur hrjáð Ítali, hagkerfið hefur rýrnað um níu prósent undanfarin sjö ár. Ríkisstjórn Letta hefur gengið vel að ná tökum á eyðslu hins opinbera.

En það hefur ekki skilað sér út í hagkerfið. Regluvætt atvinnulíf Ítala er talið gera hagkerfinu erfitt fyrir og eitt af verkefnum Letta átti að vera að endurbæta löggjöfina og gera atvinnurekendum auðveldara fyrir. Það hefur ekki gengið eftir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×