Erlent

Tíu ára drengur keyrði bílinn út í skurð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Norskur drengur bauð átján mánaða systur sinni í bíltúr í sjálfskiptum fjölskyldubíl um miðja nótt. Ökuferð systkinanna lauk í skurði en drengurinn, sem er tíu ára gamall, sagðist einfaldlega vera smávaxinn og hafa gleymt ökuskírteininu heima.

Börnin höfðu ekið um tíu kílómetra leið á fáförnum sveitavegi á sjálfskiptum fjölskyldubílnum. Förinni var heitið til ömmu þeirra. Lögreglan fékk tilkynningu um að bíll hefði hafnað í skurði klukkan sex um morguninn að því er Nettavisen greinir frá.

Drengurinn virðist hafa fengið þessa hugdettu. Hann vaknaði um nóttina, systir hans var einnig vakandi og drengurinn ákvað að fara með hana í bíltúr,“ segir lögregluþjónninn Kai Lyshaugen í Vestoppland.

Maður á snjómoksturstæki kom að bílnum í skurðinum. Drengurinn gaf þá skýringu að þau systkinin væru á leið til ömmu sinnar í um 30 kílómetra fjarlægð.

Síðar gaf hann öðrum starfsmanni við snjómokstri þá skýringu að hann væri smávaxinn. Bíllinn hefði hafnað í skurðinum þegar hann reyndi að taka U-beygju. Hana hefði hann tekið þar sem hann hefði áttað sig á því að ökuskírteinið hefði orðið eftir heima.

Ungi drengurinn og systir hans, sem sat í farþegasætinu án beltis, slösuðust ekki. Drengurinn óskaði eftir aðstoð við að ná bílnum úr skurðinum svo þau gætu haldið för sinni áfram.

Lögregla kom börnunum til síns heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×