Erlent

Íslendingar landa hval við hafnir Kanada - Grænfriðungar æfir

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
MYND/VANCOUVERSUN
Grænfriðungar segja það yfirgengilegt að hvölum sem Íslendingar og Japanir veiða sé umskipað við hafnir í Kanada en Kanada hefur samþykkt á alþjóðavettvangi að vernda hvali. The Vancouver Sun segir frá.

Yfirvöld í Kanda segja að ekkert sé hægt að gera til þess að stöðva skiptin þrátt fyrir að landið hafi undirritað alþjóðlegan samning um verndun dýra- og gróðurríkis tegunda sem eru í útrýmingarhættu. En árið 1981 voru hvalir í útrýmingarhættu settir í flokk þeirra dýra samkvæmt samningnum sem hvaða mesta vernd þurfa.

Ísland og Japan eru einnig aðilar að samningnum en samþykktu ekki breytingarnar sem gerðar voru árið 1981. Þessar þjóðir geta því veitt hvali og mega jafnvel nota kanadískar hafnir til þess að landa þeim að því er fram kemur í kanadísku fréttinni.

Grænfriðungar segja að með því að leyfa þjóðunum að landa hvalnum við hafnir landsins séu Kanadamenn að samþykkja veiðarnar. „Það verður að banna þessa flutninga á hvölum í gegnum kanadískar hafnir,“ segir Sarah King, talsmaður Grænfriðunga.

Fréttir af því að Íslendingar lönduðu hvölum við hafnir í Kanada hafa gengið fram af stjórnmálamönnum og umhverfissinnum, þar á meðal Grænfriðungum. Grænfriðungar segjast hafa frétt af því í síðustu viku að Íslendingar hefðu siglt með 12 gáma af hvalakjöti til Halifax.

Þaðan eru gámarnir að sögn Grænfriðunga fluttir með lestum til Vancouver þaðan sem kjötið er flutt til Japans.

Kanadamenn segjast ekki hafa nein úrræði til þess að stöðva þessa flutninga og þessir flutningar hafi ekki staðið yfir lengi og um sé að ræða fyrsta skipti sem Kanada tekur þátt í verslun með hvalkjöt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×