Erlent

Sögulegur stormur í Bandaríkjunum

Einhver stærsti snjóstormur, sem sögur fara af, geisar nú um stóran hluta Bandaríkja Norður Ameríku og þokast nú versta veðrið í átt að stórborgunum á austurströndinni.

Veðursvæðið er óvenju stórt en það nær í raun frá Mississippi í Suðurríkjunum og upp til Maine, við landamæri Kanada. Þannig hefur stormurinn haft áhrif í tuttugu og tveimur af fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna og eru tíu dauðsföll hið minnsta rakin til veðursins. Í Suðurríkjunum þar sem vetrar eru yfirleitt mildir eru fimmhundruð þúsund heimili nú án rafmagns. Þá hefur þurft að aflýsa um þrjúþúsund og þrjúhundruð flugferðum síðasta sólarhringinn.

Nú færist veðurhamurinn óðfluga í átt að þéttbýlustu svæðum Bandaríkjanna, til New York, Washington og Boston. Þar er búist við allt að 20 sentimetra jafnföllnum snjó á næstu klukkutímunum. Veðurstofan Bandaríska dregur ekkert úr og kallar storminn söguleg tíðindi.

Í Atlanta í Suðurríkjunum lék veðrið íbúana grátt, og hafa þeir ekki lent í öðru eins frá árinu 1973 eða í rúm fjörutíu ár. Obama Forseti hefur þegar lofað því að allt verði gert til þess að koma þeim sem verða illa úti til hjálpar og hefur neyðarástandi þegar verið lýst yfir í Suður Carólínu og í norðursýslum Georgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×