Erlent

Heilar karla mælast stærri en heilar kvenna

Jóhannes Stefánsson skrifar
Um 8-13% munur er að jafnaði á rúmmáli heila eftir kyni.
Um 8-13% munur er að jafnaði á rúmmáli heila eftir kyni. AFP
Heilar karla eru að jafnaði á bilinu 8 - 13% stærri en heilar kvenna. Þetta eru niðurstöður samanburðarrannsóknar sem var framkvæmd við Cambridge háskóla á Englandi og birt í tímaritinu Neuroscience & Biobehavioral Reviews.

Rannsóknin bar saman niðurstöður allra vísindarannsókna sem mældu rúmmál heila og voru framkvæmdar á árunum 1990 til 2013. Rannsóknirnar eru 126 talsins.

Samanburðarrannsóknin leiðir í ljós að rúmmál og þéttleiki mismunandi heilasvæða er einnig talsvert ólíkt eftir kynjum. Þannig eru sum svæði kvenna stærri og þéttari en önnur svæði í heilum karla, og öfugt.

Vísindamennirnir telja að niðurstöðurnar geti hjálpað til við að skýra hvers vegna ákveðnir sjúkdómar eða raskanir, eins og þunglyndi eða einhverfa hrjá kynin á ólíkan hátt.

Þá telja rannsakendurnir að þó að utanaðkomandi þættir kunni að hafa áhrif sé einsýnt að ólík genauppbygging og hormónastarfsemi kynjanna séu mikilvægur áhrifavaldur.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef háskólans í Cambridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×