Erlent

Þriggja daga þjóðarsorg í Alsír vegna flugslyssins

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Vélin rifnaði í tvennt við brotlendinguna að sögn sjónarvotta.
Vélin rifnaði í tvennt við brotlendinguna að sögn sjónarvotta. vísir/afp
Þriggja daga þjóðarsorg er nú í Alsír eftir að 77 fórust þegar herflugvél brotlenti í fjallshlíð skammt frá bænum Oum al-Bouaghi í austurhluta landsins í gær.

Einn komst lífs af úr slysinu og er hlúð að honum á sjúkrahúsi í borginni Constantine en flestir farþeganna voru hermenn og fjölskyldur þeirra.

Abdelaziz Bouteflika, forseti landsins, segir hina látnu vera píslarvotta en í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneytinu er slæmu veðri kennt um slysið.

Sjónarvottur sagði í samtali við Reuters-fréttastofuna að vélin hefði rifnað í tvennt við brotlendinguna, en meðal hinna látnu voru konur og börn.

Bouteflika hefur sent aðstandendum hinna látnu samúðarkveðjur en slysið er sagt hið mannskæðasta í Alsír í meira en áratug.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×