Innlent

Fráleitt að sátt náist um áframhaldandi veggjöld

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
„Notendum og þá sérstaklega stórnotendum þykir það fráleitt að Spölur ætli að ná sátt um áframhaldandi gjaldtöku,“ segir Eiríkur.
„Notendum og þá sérstaklega stórnotendum þykir það fráleitt að Spölur ætli að ná sátt um áframhaldandi gjaldtöku,“ segir Eiríkur. VÍSIR/PJETUR/SAMSETT
 „Þeir sem ferðast undir Hvalfjörðinn verða búnir að borga veggjald í 20 ár árið 2018,“ segir Eiríkur Þór Eiríksson, framkvæmdarstjóri á Akranesi og einn stofnenda hóps fólks sem krefst þess að frá og með árinu 2018 verði gjaldfrjálst í göngin eins og til hafi staðið. Hvalfjarðargöng voru opnuð sumarið 1998.

Samningi Spalar, sem rekur göngin, lýkur um áramótin 2018 og eins og fram kom á Vísi segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar að stærsta spurningin sé hvort sátt náist um áframhaldandi gjaldtöku. Spölur telur að tvöfalda þurfi Hvalfjarðargöng vegna aukinnar umferðar, eigi göngin að geta staðist tilsett öryggisskilyrði. 

„Notendum og þá sérstaklega stórnotendum þykir það fráleitt að Spölur ætli að ná sátt um áframhaldandi gjaldtöku,“ segir Eiríkur. Upphaflegur samningur Spalar við ríkið hafi verið í gildi þar til greitt hefði verið fyrir göngin. Spölur á samkvæmt samningnum að afhenda ríkinu göngin í góðu ástandi 20 árum eftir opnun þeirra.

Á meðan þeir sem nota Hvalfjarðargöng og fara þá leiðina til og frá borginni hafi greitt gjöld í 20 ár hafi engin sambærileg gjöld verið sett á vegna stækkunar Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegarins. Þá sé engin gjaldtaka vegna umferðar um önnur göng á landinu þó reyndar standi til að taka gjald vegna umferðar í gegnum Vaðlaheiðagöng.

„Annað sjónarmið er að engin umtalsverð aukning hafi verið á ferðum í gegnum göngin á síðustu sex árum miðað við tölur á vefsíðu Spalar“ segir Eiríkur.

Taflan sýnir fjölda bíla sem fara í gegnum göngin á ári frá 2008.
Þetta sé í þriðja sinn sem Spölur fari af stað með þessa umræðu að stækka þurfi göngin vegna aukinnar umferðar.

Á endanum snúist þetta um að ríkið greiði fyrir framkvæmdir sem þessar og eðlilegt sé að borgað sé fyrir samgöngubætur af skattfé þarna eins og annars staðar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×