Erlent

Fleiri dýr verða felld í dýragarðinum í Kaupmannahöfn

Hrund Þórsdóttir skrifar
Aflífun gíraffans Maríusar í dýragarðinum í Kaupmannahöfn í fyrradag hefur valdið mikilli reiði. Hann var 18 mánaða og heilbrigður en var felldur vegna plássleysis og hættu á innræktun.

Margir undrast ákvörðunina en hún er alls ekki einsdæmi. Í garðinum eru 20 til 30 dýr felld á hverju ári og sama gildir um aðra evrópska dýragarða þar sem til dæmis sebrahestar, antílópur og flóðhestar hafa verið felldir síðustu ár.

Tugþúsundir hafa tíst vegna málsins um allan heim og á Twitter hafa starfsmenn dýragarðsins verið nafngreindir, hvatt hefur verið til þess að yfirmaður hans verði rekinn og sumir vilja að garðinum verði lokað. Aðrir benda hins vegar á að svona sé gangur lífsins.

Yfirmaðurinn segir sjálfur mistök að gefa Maríusi nafn og nefnir ísbjarnarhúninn Knút, sem naut mikilla vinsælda í dýragarðinum í Berlín fyrir nokkrum árum, sem dæmi. Dýrunum eigi ekki að gefa mannlega eiginleika heldur eigi að leyfa þeim eftir fremsta megni að vera það sem þau séu; villtar skepnur.

Þrátt fyrir lætin láta starfsmenn engan bilbug á sér finna og verður fleiri heilbrigðum dýrum lógað í dýragarðinum í Kaupmannahöfn í framtíðinni.


Tengdar fréttir

Mikil reiði eftir að gíraffinn Marius var aflífaður

Dýraverndunarsinnar eru æfir eftir að dýragarðurinn í Kaupmannahöfn ákvað að aflífa 18 mánaða heilbrigðan gíraffa. Dýragarðurinn taldi sig knúinn til að aflífa gíraffann vegna plássleysis og hættu á innræktun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×