Erlent

Barnastjarnan Shirley Temple látin

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir_AFP Nordic
Söng- og leikkonan Shirley Temple er látinn, 85 ára að aldri. Barnastjarnan þekkta sem lék í myndum eins og myndinni um Heiðu, Little Miss Marker, The little Colonel og The littlest Rebel, var fædd árið 1928.

Í fjögur ár var hún skærasta stjarna Hollywood og þegar hún var einungis sex ára þénaði hún um 1.250 dali á viku. Það samsvaraði meira en 21.000 dölum á núvirði, eða rúmlega tvær og hálf milljón króna. Þegar hún var tíu ára sagði Theodore Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, að hún hefði hjálpað bandarísku þjóðinni í gegnum kreppuna.

Eftir að leiklistarferlinum lauk árið 1949, hafði hún leikið í 44 myndum. Hún sneri þó aftur sem stjórnmála- og viðskiptakona. Hún var meðal annars sendiherra Bandaríkjanna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Hún var einnig sendiherra Bandaríkjanna í Gana og í Tékkóslóvakíu. Shirley kvæntist tvívegis. Fyrst kvæntist hún John Agar árið 1945 og Charles Alden Black árið 1950. Hún eignaðist tvær dætur og einn son.

Shirley greindist með brjóstakrabbamein árið 1972 og var meðal fyrstu kvenna sem talaði opinberlega um sjúkdóminn. 

Hér að neðan má sjá myndbandssamantekt úr myndum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×