Erlent

Spillingarmál Berlusconis þingfest

Stefán Ó. Jónsson skrifar
visir/AP
Spillingarmál fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvios Berlusconi, verður tekið fyrir dómstóla í Napólí í dag. Berlusconi er sakaður um að hafa reynt að greiða þingmanni efri deildar, Sergio de Gregorio um 3 milljónir evra til þess að ganga í flokksraðir forsætisráðherrans árið 2006.

Ekki er búist við því að 77 ára gamli milljarðamæringurinn verði viðstaddur þegar málið er dómtekið en engin krafa er um slíkt í ítölskum lögum. Gregorio þessi sat þá á þingi fyrir flokkinn Italia dei Valori sem berst sérstaklega gegn spillingu í ítölskum stjórnmálum en Berlusconi reyndi að sannfæra hann um að ganga í flokk sinn, Il Popolo della Libertà, til að grafa undan þáverandi ríkisstjórn.

Sökum aldurs mun Silvio Berlusconi ekki þurfa að sitja í fangelsi en dómstólar munu ákveða í apríl hvort hann muni þurfa að eyða einu ári í samfélagsþjónustu eða stofufangelsi. Árið í ár verður tíðindamikið hjá Berlusconi en í ár mun hann einnig áfrýja fyrri dómsúrskurðum sem sakfelldu hann fyrir vændiskaup, misnotkun valds og fyrir að hafa lekið hlerunum lögreglunnar til að koma höggi á pólitískan andstæðing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×